Austfirsk ungmenni fóru heim hlaðin verðlaunum eftir velheppnaða keppni á Grunnskólamóti Íslands um síðustu helgi. Einnig náðist frábær árangur í Íslandsglímunni, þar sem keppendur frá UÍA röðuðu sér í annað og þriðja sæti.
Stigabikarinn í glímu til Grunnskóla Reyðarfjarðar
Austfirsk ungmenni fóru heim hlaðin verðlaunum eftir velheppnaða keppni á Grunnskólamóti Íslands. Einnig náðist frábær árangur í Íslandsglímunni, þar sem keppendur frá UÍA röðuðu sér í annað og þriðja sæti.
Í Íslandsglímunni munaði aðeins hársbreidd að UÍA sigraði í bæði kvenna- og karlaflokki. Eva Dögg Jóhannsdóttir, Hjalti Þórarinn Ásmundsson og Sindri Freyr Jónsson háðu öll úrslitaglímur, Eva Dögg um Freyjumenið og þeir Hjalti og Sindri Freyr um Grettisbeltið. Íslandsglíman fór fram í íþróttahúsi Kennaraháskólans um síðustu helgi í 104. sinn.
Leikar fóru hins vegar svo að Eva Dögg og Hjalti urðu í öðru sæti og Sindri Freyr í því þriðja. Aldrei fyrr hafa Austfirðingar verið jafn nálægt því að hampa þessum eftirsóttu glímuverðlaunum.
Auk silfurverðlaunanna hlaut Eva Dögg einnig Rósina fyrir fegurstu glímu mótsins.
Á grunnskólamótinu tóku þátt tuttugu nemendur frá Reyðarfirði, en auk þess að vinna stigabikarinn hömpuðu fjórir grunnskólameistaratitli þau Anthony Thomas Kolosov, Fanney Ösp Guðjónsdóttir, Bóas Garski Ketilsson og Bylgja Rún Ólafsdóttir. Auk þess landaði hópurinn fjórum silfurverðlaunum og fjórum bronsverðlaunum.
Nánar um úrslit Íslandsglímunnar