mobile navigation trigger mobile search trigger
09.06.2014

Stúdíó Silo í Sköpunarmiðstöðinni á Stöðvarfirði

Í Sköpunarmiðstöðinni á Stöðvarfirði eru alla jafna ýmis járn í eldinu og nú í sumar er lagt upp í að umbreyta fyrrum íssíló verksmiðjunnar í upptökuver fyrir tónlistarfólk.

Stúdíó Silo í Sköpunarmiðstöðinni á Stöðvarfirði
Stefnt er að því að innrétta gamla íssílóið sem fullkomið upptökustúdíó.

Í Sköpunarmiðstöðinni á Stöðvarfirði eru alla jafna ýmis járn í eldinu og nú í sumar er lagt upp í að umbreyta fyrrum íssíló verksmiðjunnar í upptökuver fyrir tónlistarfólk.

Það eru þau Una og Vinny sem hafa tekið verkefnið að sér. Vinny er írskur tónlistarmaður sem hefur rekið analog upptökuver þar í landi síðastliðinn áratug og er markmiðið að geta boðið upp á slíka tækni í verinu. Una er íslensk listarkona og þykir einkar handlaginn smiður. Þau hafa verið búsett á Írlandi en komu með vorinu til landsins og settust að á Stöðvarfirði.

Ætlunin með verkefninu er að bjóða tónlistarfólki upp á þann möguleika að dvelja í lengri eða skemmri tíma á Stöðvarfirði og hafa völ á að hljóðritað þar sín fegurstu, jafnt sem framsæknustu tónverk. Hljóðupptökuverið og vera tónlistarfólks á svæðinu yrði rós í hnappagat miðstöðvarinnar og myndi efla þá fjölþættu starfsemi sem þar fer fram. Eins er ljóst að aðstaðan myndi stuðla að auknu tónlistar- og tónleikalífi á Austfjörðum.

Upptökuverið dregur nafn sitt af fyrra hlutverki rýmisins og hefur verið nefnt Stúdió Siló. Íssílóið tók upp um 90 fm2 rými og eftir miklar bollaleggingar og mælingar hefur endanleg hönnun verið dregin upp og síðustu leifum ísgerðarvélarinnar verið komið út.

Til að fjármangan verkefnið hafa þau sett af stað 30 daga samskotssöfnun á karolinafund.com. Á vefsíðunni má sjá bráðskemmtilegt kynningarmyndband um verkefnið og kynnast þannig Stúdíó Siló betur.

Einnig er hægt að fylgjast með framgangi verkefnisins á Studio silo Fasbókarsíðunni, á vefsíðu Sköpunarmiðstöðvarinnar inhere.is og á kynningarmyndbandi á YouTube.

Frétta og viðburðayfirlit