mobile navigation trigger mobile search trigger
10.03.2021

Stytting vinnuvikunar hjá Fjarðabyggð

Eins og flestir vita var samið um styttingu vinnuvikunnar og betri vinnutíma fyrir ýmsa hópa dag- og vaktavinnufólk í síðustu kjarasamningum. Stytting dagvinnutíma tók gildi 1. janúar 2021 og breyting á vaktafyrirkomulagi og stytting vinnutíma í vaktavinnu mun taka gildi þann 1. maí n.k. og er nú unnið að útfærslu á því fyrirkomulagi.

Stytting vinnuvikunar hjá Fjarðabyggð

Hjá Fjarðabyggð var unnið að útfærslu styttingar í samvinnu við starfsmenn stofnanna þannig að allir starfsmenn hefðu ákvörðunartökurétt í ferlinu. Vinnutímahópar á hverjum stað útfærðu hugmyndir eftir samtöl við starfsmenn og svo var kostið um útfærslur. Starfsmenn okkar eru sérfræðingar í þeim störfum sem þeir sinna og því er eðlilegt að þeir meti hvernig best hentar að taka styttinguna út á hverjum stað. Jafnframt var hlutastarfsmönnum heimilað að hækka starfshlutfall sem nemur styttingu til að koma í veg fyrir mönnunargat í stofnunum og því aukaálagi sem því myndi fylgja á starfsmenn.

Markmiðið með breyttum vinnutíma og fækkun á þeim klukkustundum sem starfsmenn eru í vinnu er að auka lífsgæði og koma betra jafnvægi á milli vinnu og einkalífs. Í kjarasamningum var samið um að hver vinnudagur styttist um 13 mínútur ef starfsmaður er í 100% starfi og hlutfallslega fyrir starfsmenn í hlutastörfum. Heimilt var að taka styttinguna út á hverjum degi, vikulega, á tveggja vikna fresti, á þriggja vikna fresti eða á 4 vikna fresti.

Mikil umræða hefur skapast í samfélaginu vegna þessara breytinga og mikil krafa hefur verið uppi frá stéttarfélögum varðandi að stytta vinnutíma enn frekar. Þetta eru göfug markmið í sjálfu sér en að mati Fjarðabyggðar er ekki búið að útfæra nægjanlega vel leiðir til að ná styttingunni fram til þess að sveitarfélagið  geti samþykkt að stytta vinnutíma úr 40 stundum í 36 stundir í stofnunum sveitarfélagsins. Ástæða þess  er einföld; sveitarfélaginu er skylt að tryggja andlegt og líkamlegt öryggi starfsmann sinna en rannsóknir sýna að starfsmenn sem sinna störfum þar sem álag er mikið eiga á aukinni hættu að finna fyrir líkamlegri og sálrænni þreytu ásamt því að glíma við svefnvandamál. Hér er sérstaklega átt við þá starfsmenn sem geta ekki tekið sér regluleg hlé yfir vinnudaginn. Þar af leiðandi getur Fjarðabyggð ekki samþykkt að stuðla að vinnuumhverfi sem hvetur til þess að starfsmenn afsali sér matar- og kaffitímum á sama tíma og sífelt fleiri einstaklingar þurfa að nýta sér þjónustu Virk starfsendurhæfingar vegna andlegar og líkamlegar veikinda sem rekja má til álags í vinnu.

Frétta og viðburðayfirlit