mobile navigation trigger mobile search trigger
30.05.2014

Minnisvarði afhjúpaður í Vöðlavík

Minnisvarði björgunarsveitanna Gerpis og Brimrúnar um afrekin í Vöðlavík var afhjúpaður í dag að viðstöddu fjölmenni. Afhjúpunin kom í hlut Garys Copsey, annars tveggja þyrluflugmanna bandaríska flughersins á slysstað, þegar Goðinn strandaði í víkinni fyrir 20 árum.

Minnisvarði afhjúpaður í Vöðlavík
Minnisvarði um björgunarafrekin í Vöðlavík var afhjúpaður að viðstöddu fjölmenni. Hér má sjá þann hluta viðstaddra sem fór landleiðina, skömmu fyrir brottför frá Mjóeyri. Björgunarskip og -bátar komu sjóleiðina, auk þess sem TF Sýn kom fljúgandi á staðinn.

Minnisvarði björgunarsveitanna Gerpis og Brimrúnar um afrekin í Vöðlavík var afhjúpaður í dag að viðstöddu fjölmenni. Afhjúpunin kom í hlut Garys Copsey, annars tveggja þyrluflugmanna bandaríska flughersins á slysstað, þegar Goðinn strandaði í víkinni fyrir 20 árum.

Að athöfn lokinni fóru fram björgunaræfingar til heiðurs þeim sem tóku þátt í björgunarafrekunum.  

Sjóslysið varð 10. janúar 1994, þegar björgunar- og dráttarskipið Goðinn freistaði þess að ná Bergvík VE 105 af strandstað í Vöðlavík, en nokkrum vikum áður hafði tekist að bjarga áhöfn bátsins með fluglínutækjum björgunarsveita við erfiðar aðstæður.

Aðstæður voru hálfu verri þegar Goðinn strandaði. Með frækilegri aðstoð 56. þyrlusveitar varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli tókst að bjarga þeim sex af sjömanna áhöfn bátsins sem lifðu slysið af.

Athöfnin fór fram í fallegu veðri í Vöðlavík. Viðstaddir voru áhöfn Goðans og Bergvíkur ásamt ættingjum, björgunarmönnum frá 1994 og björgunarsveitum í Fjarðabyggð og Fljótsdalshéraði.

Með Gary Copsy í för hingað til lands voru fulltrúar bandaríska flughersins, US Air Force, og Marcy Brown, konsúll Bandaríkjanna á Íslandi. Flugsveitarmennirnir komu hingað til lands á Hercules-vél sem lenti á Egilsstaðarflugvelli fyrr um daginn.

Björgunarskipið Hafbjörg var einnig á staðnum ásamt harðbotna björgunarbátum frá Norðfirði, Eskifirði og Fáskrúðsfirði og þyrlu Landhelgisgæslunnar TF Sýn.

Fulltrúar Fjarðabyggðar voru Jens Garðar Helgason, formaður bæjarráðs, Eydís Ásbjörnsdóttir, bæjarfulltrúi og Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar.

Að björgunaræfingum loknum voru kaffiveitingar í Karlsskála í boði Gerpis og Brimrúnar. TF Sýn flaug Gary Copsey í kaffið, en fór fyrst heiðurhring um svæðið með gömlu kempuna.

Við skipulagningu og undirbúning nutu björgunarsveitirnar Gerpir og Brimrún aðstoðar Bjarna Stefánssonar, fyrrv. Sýslumanns á Eskifirði.

Sjá frétt um björgunarafrekin í Vöðlavík

Frétta og viðburðayfirlit