mobile navigation trigger mobile search trigger
07.09.2014

Tilkynning vegna brennisteinsdíoxíðs á Austurlandi

Í síðustu daga hefur blá móða legið yfir Austurlandi vegna eldgossins í Holuhrauni. Í tilkynningu frá Umhverfisstofnun og Sóttvarnarlækni kemur fram að há gildi brennisteinsdíoxíðs mælist í Reyðarfirði. Loftmyndir benda til enn meiri mengunar á Jökuldal og Fljótsdal.

Tilkynning vegna brennisteinsdíoxíðs á Austurlandi
Mynd af vef Ríkisútvarpsins, ruv.is, af blámóðunni á Austurlandi.

Tilkynning frá Umhverfisstofnun og Sóttvarnarlækni vegna brennisdíoxíð (SO2) á Austurlandi

Í síðustu daga hefur blá móða legið yfir Austurlandi vegna eldgossins í Holuhrauni og var hún óvenju mikil í gær laugardag. Há gildi mældust á vöktunarstöðvum í Reyðarfirði og loftmyndir bentu til að mengun væri jafnvel enn meiri á Jökuldal og Fljótsdal.

Þó að þessi gildi séu einstök hér á landi eru sambærileg og jafnvel enn hærri gildi þekkt í stórum iðnaðarborgum.

Þau gildi sem mældust í gær eru þau hæstu sem mælst hafa í byggð hér á landi síðan mælingar á mengun hófust á Íslandi nokkuð fyrir 1970. Búast má við sambærilegu gildum áfram ef veðuraðstæður verða áfram svipaður og gangur gossins hin sami.

Miðað við mælingar síðustu daga má má búast við að hæstu gildi í byggð, í vindátt frá gosstöðvunum, geti verið á bilinu 500-1.000 µg/m3 (míkrógrömm á rúmmetra). Að mati Sóttvarnarlæknis ætti fullfrískt fólk ekki að finna fyrir neinum áhrifum eins og staðan er um þessar mundir en ætti engu að síður að forðast mikla áreynslu utan dyra.

Fólk sem er viðkvæmt fyrir eins og börn og fullorðnir með astma og aðra sjúkdóma í öndunarfærum eða hjartasjúkdóma getur fundið fyrir óþægindum og ætti að forðast mikla áreynslu. Fólk sem notar innöndunarlyf vegna lungnasjúkdóma gæti þurft að auka lyfjaskammtinn í samráði við sinn lækni. Mikilvægt er að sjúklingar hugi að því að hafa lyf sín tiltæk. Öndum um nef í stað þess að anda gegnum munn dregur úr áhrifum brennisteinsdíoxíðs.

Ekki er hægt að útiloka að gildi verði hærri en 1.000 µg/m3 og því mikilvægt að fólk fylgist með upplýsingum um mengunina. Miklar sveiflur geta verið á styrk mengunarinnar og eru vindátt og vindstyrkur ráðandi þættir að því gefnu að gosið sé stöðugt.

Góðar upplýsingar eru um styrk mengunarinnar niður á Reyðarfirði vegna umhverfisvöktunar sem þar er í gangi en unnið er að því að koma upp mælum víðar eins og t.d. á Egilsstöðum.

Um kvöldmatarleytið á laugardag óku starfsmenn Heilbrigðiseftirlits Austurlands með handmæla inn Fljótsdal, Jökuldal og niður á Reyðarfjörð. Í þeirri ferð mældist ekki styrkur inn á mælisviði mælanna sem er 290 µg/m3 en allt bendir til að á þeim tíma hafi mengunin verið minni en hún var mest um kl 15 á laugardeginum.

Ítarefni:
Til að útskýra af hverju nokkur mismunandi mörk eru í gildi varðandi brennisteinsdíoxíð í stað þess að hafa ein alsherjarmörk er rétt að útskýra hugsunina bak við mörkin.

Áhrif loftmengunar á heilsu fólks er háð tveimur þáttum sem verða ekki aðskildir. Það eru annars vegar styrkur mengunar og hins vegar það tímabil sem mengunin stendur yfir. Margfeldi þessara tveggja þátta er kallað útsetning (e. exposure).

Þannig getur verið að mengunartoppur sem hefur mjög háan styrk en stendur stutt yfir hafi óveruleg áhrif á heilsu fólks en að toppur sem hefur mun lægri styrk en varir lengi hafi meiri áhrif á heilsu.

Þetta endurspeglast í hinum mismunandi mörkum. Þannig eru mengunarmörk SO2 fyrir klukkutímann 350 μg/m3 og fyrir sólarhringinn 125 μg/m3.

Heilsuverndarmörk eru miðuð við alla hópa sem viðkvæmir eru fyrir mengun, þar með talið börn og því eru þau strangari en vinnuverndarmörk sem aðeins eru miðuð við vinnandi fólk og aðeins í 8 tíma á dag hluta vikunnar.

(Birt 8. september 2014) 

Tilkynning Umhverfisstofnunar og sóttvarnarlæknis ásamt ítarefni

Upplýsingasíða Umhverfisstofnunar vegna SO2 gosmengunar

Tilkynning Ebmættis landlæknis

Sjá frétt á ruv.is

 

Frétta og viðburðayfirlit