Bæjarstjóri og bæjarráð Fjarðabyggðar hleyptu í sameiningu af fyrstu sprengingunni vegna Norðfjarðarganga Fannardalsmegin. Þetta táknræna upphaf á gangagerðinni markar lokin á langri og samstilltri baráttu heimamanna fyrir Norðfjarðargöngum.
Upphaf sem markar lokin á langri baráttu
Bæjarstjóri og bæjarráð Fjarðabyggðar hleyptu í sameiningu af fyrstu sprengingunni vegna Norðfjarðarganga Fannardalsmegin og hófu með þeim formlega hætti sjálfa jarðgangagerðina.
Sprengingin fór fram á sjöunda tímanum í kvöld að viðstöddum nokkrum fjölda fólks. Ávarp flutti Jón Björn Hákonarson, forseti bæjarstjórnar, en þetta táknræna upphaf á gangagerðinni markar jafnframt lokin á langri og samstilltri baráttu heimamanna fyrir Norðfjarðargöngum.
Að sögn Páls Björgvins Guðmundssonar, bæjarstjóra, tókst með samstilltri baráttu að gera Norðfjarðargöng að veruleika og hún sé til marks um þann mikla samtakamátt sem í heimafólki býr. Þá þakkar hann einnig stuðning annarra sveitarfélaga á Austurlandi og mikilvæga liðveislu þeirra í baráttunni.
„Með þessum ánægjulega áfanga getum við litið sérlega björtum augum fram á veginn. Þó að þýðing Norðfjarðarganga sé gríðarleg hvað öryggi snertir og lífsgæði þeirra sem hér búa, þá nær áhrifasvæði þeirra langt út fyrir Norðfjörðinn.“
Af þessu tilefni fór einnig fram athöfn í nafni heilagrar Barböru, verndardýrlings námumanna að kaþólskum sið, en líkneski af dýrlingnum var komið fyrir innan við upphafsmörk ganganna. Að athöfninni stóðu Metrostav og Suðurverk, verktakar Norðfjarðarganga.
Í bæjarráði Fjarðabyggðar eiga sæti Jens Garðar Helgason, formaður, Jón Björn Hákonarson, forseti bæjarstjórnar og Eydís Ásbjörnsdóttir, bæjarfulltrúi.
Ljósmyndir: Kristín Svanhvít Hávarðardóttir.