Eykon Energy hefur ákveðið að leita eftir samningum um uppbyggingu þjónustumiðstöðvar fyrir olíuleit og -vinnslu við Reyðarfjörð. Gríðarleg tækifæri fyrir landshlutann, að sögn Jens Garðars Helgasonar, formanns bæjarráðs Fjarðabyggðar.
Valið stóð á milli Reyðarfjarðar og Akureyrar
Eykon Energy hefur ákveðið að leita eftir samningum um uppbyggingu þjónustumiðstöðvar fyrir olíuleit og -vinnslu við Reyðarfjörð. Skapar að sögn Jens Garðars Helgasonar, formanns bæjarráðs Fjarðabyggðar, gríðarleg tækifæri.
Fjarðabyggð og Fljótsdalshérað hafa unnið saman að staðarvali fyrir slíka þjónustumiðstöð á Reyðarfirði. Sameiginlegir styrkleikar sveitarfélaganna felast m.a. í kjöraðstöðu fyrir hafnsækna starfsemi á Reyðarfirði og aðgengi að alþjóðlegum flugvelli á Egilsstöðum.
Af þeim þremur sérleyfum sem gefin hafa verið út til olíuleitar og -vinnslu á Drekasvæðinu er Eykon aðili að tveimur eða fyrsta og þriðja sérleyfi, sem jafnframt er það stærsta. Leyfishafi annars sérleyfisins tilkynnti fyrir skömmu staðarval á Húsavík.
Haukur Óskarsson, stjórnarmaður í Eykon og framkvæmdastjóri hjá Mannviti, segir að þrennt hafi ráðið úrslitum eða staðsetning, innviðir og samfélag sem hefur þekkingu og reynslu af því að taka á móti stórum verkefnum. Í Fjarðabyggð og á Fljótsdalshéraði hafi byggst upp sterkt bakland fyrir starfsemi af þessum toga og fjölbreytt flóra fyrirtækja í þjónustu- og tæknigeiranum. Með hliðsjón af aðstöðu og aðstæðum hafi valið í raun staðið á milli Akureyrar og Reyðarfjarðar og hafi síðarnefndi staðurinn haft vinninginn vegna staðsetningar gagnvart Drekasvæðinu.
Þá hefur Jens Garðar Helgason bent á að öll aðstaða sé þegar fyrir hendi á Reyðarfirði fyrir fyrstu uppbyggingarfasana, þ.á.m. 90 metra langur hafnarbakki og sérhæfður mannauður.