Undirbúningur vegna framkvæmda við nýjan leikskóla á Neseyri í Neskaupstað hefst í janúar á næsta ári, samkvæmt verksamning sem undirritaður var í dag. Hér má sjá Pál Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóra og Guðgeir Sigurjónsson, framkvæmdastjóra VHE á Austurlandi, takast í hendur að undirskrift lokinni. Áætluð verklok eru 1. ágúst 2016.
Verksamningur vegna nýs leikskóla undirritaður
Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri og Guðgeir Sigurjóns, framkvæmdastjóri VHE á Austurlandi, undirrituðu í dag verksamning vegna byggingar nýs leikskóla á Neseyri í Neskaupstað. Undirbúningur verksins hefst í janúar á næsta ári, með uppsetningu vinnubúða sem verða reistar skammt frá Neseyri. Í framhaldi af því, líklega í febrúar, hefst jarðvinna. Áætluð verklok eru 1. ágúst árið 2016.
Verksamningurinn er gerður á grunni útboðs sem sveitarfélagið fór í vegna framkvæmdarinnar. Útboðsfrestur rann út 3. nóvember sl. og reyndist VHE lægstbjóðandi.
Arkitektar að nýja leikskólanum eru Park teiknistofa, burðarvirki og lagnir hannaði verkfræðistofan Mannvit og raflagnir hannaði verkfræðistofan Efla. Umsjón og eftirlit með framkvæmdinni hefur Guðmundur Elíasson, mannvirkjastjóri Fjarðabyggðar. Áætlaður kostnaður verksins er um 480 m.kr.