Sjötti bekkur Grunnskóla Reyðarfjarðar afhenti Jens Garðari Helgasyni, formanni bæjarráðs, úrslit í nafnasamkeppni sem bekkurinn efndi til um nafn á litlu tjörninni næst Andapollinum.
Ægistjörn hlaut flest atkvæði
Í bréfi frá bekknum til bæjarstjórnar Fjarðabyggðar kemur fram að nemendur gangi oft inn að Andaplli þar sem fylgst er með lífríki tjarnanna. Í þessum ferðum hafi það vakið athygli þeirra að nafn vantaði á þá tjörn sem er nær sjónum.
Var því gengist fyrir nafnasamkeppni og kaus bekkurinn síðan á milli 12 tillagna. Heitið Ægistjörn var hlutskapast og leggur bekkurinn til að tjörnin fái framvegis það heiti. Heitið vísar til Ægisgötu, sem liggur meðfram sjávarsíðu bæjarins.
Jens Garðar hrósaði bekknum fyrir skelegga framgöngu og hét því mæla með tillögunni á næsta fundi bæjarráðs.
Hér má sjá 6. bekk grunnskólans á Reyðarfirði ásamt Jens Garðari, Þoroddi Helgasyni, fræðslustjóra og Gunnari Jónssyni, bæjarritara Fjarðabyggðar.
Nöfnin sem kosið var um voru:
Fuglavað, Leirutjörn, Fuglatjörn, Andapollur Junior, Andaleirur, Sílapollur, Pósthústjörn, Ægistjörn, Súper Swag tjörn, Vaðfuglatjörn, Andavatn og Fuglavatn.