mobile navigation trigger mobile search trigger
14.10.2024

Landsmót Samfés

Landsmót Samfés er haldið að hausti ár hvert þar sem aðildarfélög Samfés koma saman. Á landsmóti fer fram lýðræðisleg kosning í ungmennaráð Samfés. Alls er kosið í níu kjördæmum þar sem tveir fulltrúar eru kosnir úr hverju kjördæmi, 18 fulltrúa til tveggja ára og níu fulltrúa til eins árs. Fulltrúar ungmennaráðs er því 27 talsins og eru fulltrúarnir á aldrinum 13-16 ára.

Landsmót Samfés
María Lind, Fanney Ósk, Arnar Snær, Bjarki Steinn, Mattías Örn, Michael Fjólar, Þórarinn Viðfjörð, Valgeir Elís og Hólmfríður Margrét.

Í ár fóru átta unglingar frá Fjarðabyggð á landsmótið sem var haldið helgina 4.- 6. október, þar sem þau skemmtu sér vel og kynntust öðrum unglingum, en um 380 ungmenni allstaðar af landinu voru samankomin. Fanney Ósk Sveinbjörnsdóttir bauð sig fram í ungmennaráð Samfés og var kosin til eins árs. Valgeir Elís Hafþórsson var kosin til tveggja ára í fyrra og á því eitt ár eftir í ungmennaráði. Valgeir stóð sig með prýði við skipulaggningu landsmótsins ásamt öðrum meðlimum ráðsins. Hann flutti einnig tvö lög á sviði á ballinu sem haldið var á laugardagskvöldið þar sem mikil fagnaðarlæti fylgdu. Fanney Ósk og Valgeir koma bæði úr Nesskóla.

Dagskrá landsmóts Samfés er þríþætt. Unnið er í fjölbreyttum smiðjum þar sem markmiðið er að ungmennin taki það sem þau læra með sér heim og miðli reynslu sinni og þekkingu í félagsmiðstöðina sína. Auk þess er lögð rík áhersla á mikilvægi þess að hitta jafnaldra sína, kynnast nýju fólki og að allir skemmti sér á heilbrigðan máta.

Lýðræðisleg vinnubrögð eru allsráðandi á landsmóti Samfés en lokadagur mótsins er helgaður landsþingi ungs fólks. Það er ungmennaráð Samfés sem hefur veg og vanda að skipulagningu. Á landsþinginu fær ungt fólk tækifæri til að tjá sig um hin ýmsu málefni sem er þeim hugleikinn. Í ár ræddu ungmenni um fordóma, ofbeldi, efnishyggju, andlega heilsu og heilsu almennt, menntamál félagsmiðstöðvar og ungmennahús. Í kjölfar landsþings tekur ungmennaráð saman niðurstöður og sendir ályktanir á ráðuneyti, sveitarstjórnir, fjölmiðla og aðildarfélaga Samfés.

Fleiri myndir:
Landsmót Samfés
Fanney Ósk og Valgeir Elís úr Nesskóla

Frétta og viðburðayfirlit