Ölver Jakobsson Michelsen, forstöðumaður íþróttahússins á Fáskrúðsfirði, lét af störfum 31. ágúst síðastliðinn, eftir að hafa starfað í 27 ár hjá Fjarðabyggð og áður hjá Búðarhreppi. Ölver eða Ölli eins og hann er gjarnan kallaður hóf störf hjá Búðarhreppi sem forstöðumaður íþróttahússins 11. nóvember árið 1997.
12.11.2024
Ölver Jakobsson Michelsen, forstöðumaður íþróttahússins á Fáskrúðsfirði lætur af störfum
Í tilefni af starfslokum Ölla efndu samstarfsfólk hans og nemendur í grunnskólanum til kveðjuhátíðar 2. nóvember síðastliðin og færði Magnús Árni Gunnarsson, stjórnandi íþrótta- og frístundamála honum kveðjugjöf fyrir hönd sveitarfélagsins.
Ölli hefur alltaf haft hjarta fyrir börnunum og lagt sig fram um að skapa þeim jákvætt umhverfi. Á löngum ferli sínum hefur hann unnið sér virðingu og ást hjá bæði skólanum og ungmennahreyfingunni. Íþróttahúsið hefur jafnvel verið kallað „Ölvershöll” meðal heimamanna – nafnið eitt segir allt um áhrif hans á staðinn.
Við þökkum Ölla innilega fyrir ómetanlegt framlag hans og óskum honum alls hins besta í næsta kafla lífsins.