Fjarðabyggð mun fara í hraða uppbyggingu á ljósleiðarakerfi í sveitarfélaginu í kjölfar tilboðs fjarskiptasjóðs um stuðning við uppbyggingu ljósleiðaraneta utan markaðssvæða í þéttbýli. Hvert heimili í þéttbýli fær 80.000 kr. styrk til að kosta jarðvinnu til að tengja ljósleiðara fyrir árslok 2026.
Framtíðin er ljós í Fjarðabyggð
Þökk sé þessum styrk og í samvinnu við Mílu hf. ætlar Fjarðabyggð að ráðast í það verkefni að ljósleiðaravæða sveitarfélagið með það að markmiði að tryggja aukin lífsgæði íbúa og bæta tengingar atvinnulífsins. Verkefnið við að ljósleiðaravæða þéttbýlið mun vera áfangaskipt og stefnt er að klárist fyrir lok ársins 2026. Ljósleiðari er öflug tenging til framtíðar. Fyrst um sinn verður boðið upp á 1.000 megabita / sekúndu nethraða sem verða seinna meir uppfærðar í 10x tengingar sem eru tíu sinnum hraðari.
„Ljósleiðari er gríðarlega mikilvægur samfélaginu og sér íbúum, stofnunum og fyrirtækjum í Fjarðabyggð fyrir tengingum við umheiminn. Öflugt netsamband er ein af grunnstoðum lífsgæða, menntunar og atvinnutækifæra.“ segir Ragnar Sigurðsson bæjarfulltrúi Fjarðabyggðar.
Vinsamlegast kynnið ykkur framvindu framkvæmda við uppbyggingu hér: https://fjb.is/Ljosleidari