mobile navigation trigger mobile search trigger
28.10.2024

Umfangsmikið átak ljósleiðaravæðingu heimila og fyrirtækja í Fjarðabyggð hrundið af stað

Í gær var undirritaður samningur Fjarðabyggðar og Mílu um viðamikla framkvæmd sveitarfélagsins í að ljúka ljósleiðaravæðingu heimila og fyrirtækja allra byggðakjarna næstu tvö árin. Í dag eru allt að 60% heimila í Fjarðabyggð án ljósleiðaratengingu. Ragnar Sigurðsson, formaður bæjarráðs segir ljósleiðaravæðingu Fjarðabyggðar vera íbúum mikið kappsmál. Eitt stærsta verkefni í uppbyggingu innviða sveitarfélagsins síðari ára.

Umfangsmikið átak ljósleiðaravæðingu heimila og fyrirtækja í Fjarðabyggð hrundið af stað
Ragnar Sigurðsson, formaður bæjarráðs, Erik Figueras Torras, forstjóri Mílu og Jóna Árný Þórðardóttir, bæjarstjóri Fjarðabyggðar.

Kynningarfundur um ljósleiðaravæðingu Fjarðabyggðar var haldinn í Salthúsmarkaðnum á Stöðvarfirði í gær, mánudaginn 28. október. Á fundinum skýrðu þeir Erik Figueras Torras forstjóri Mílu og Ragnar Sigurðsson formaður bæjarráðs Fjarðabyggðar skipulag átaksins sem ber heitið „Framtíðin er ljós í Fjarðabyggð“. Þá ávarpaði Valborg Ösp Á. Warén verkefnastjóri „Sterks Stöðvarfjarðar“ einnig fundinn. Því næst var undirritaður samningur Fjarðabyggðar og Mílu um þessa framkvæmd sem nær til allra byggðakjarna sveitarfélagsins.

Þegar Fjarskiptastofa kannaði í vor áform fjarskiptafyrirtækja og opinberra aðila um uppbyggingu á ljósleiðara í þéttbýli næstu tvö árin kom í ljós að slík áform næðu ekki til 4.438 heimila í 48 sveitarfélögum. Langflest eða 1.012 heimili í Fjarðabyggð eru ótengd.

Fjarðabyggð ákvað því í sumar að hraða uppbyggingu á ljósleiðarakerfi í kjölfar tilboðs Fjarskiptasjóðs um stuðning við uppbyggingu ljósleiðaraneta utan markaðssvæða í þéttbýli. Þar fær sveitarfélagið 80.000 kr. styrk á hvert ótengt heimili til að kosta jarðvinnu og að tengja ljósleiðara fyrir árslok 2026.

Tengingin er íbúum að kostnaðarlausu

Þökk sé þessum styrk og í samvinnu við fjarskiptainnviðafélagið Mílu hf. ætlar Fjarðabyggð að ráðast í að ljósleiðaravæða sveitarfélagið með það að markmiði að auka lífsgæði íbúa og bæta tengingu atvinnulífs.

Ljósleiðari er öflug tenging til framtíðar. Fyrst um sinn verður boðið upp á 1.000 megabita / sekúndu nethraða sem verða seinna meir uppfærðar í 10x tengingar sem eru tífalt hraðari.

Ljósleiðaravæðing heimila í Fjarðabyggð er íbúum að kostnaðarlausu þannig að hvorki verður innheimt tengi- eða stofngjald. Íbúar þurfa engu að síður að óska eftir tengingu.

Miklar framkvæmdir næstu tvö árin

Á fundinum greindu starfsmenn Mílu frá þessari umfangsmiklu framkvæmd sem er áfangaskipt. Stefnt er að því að klára ljósleiðaravæðingu fyrir árslok 2026.

Verkefnið er að tengja rúmlega þúsund byggingar (staðföng) í Fjarðabyggð. Framkvæmdir eru hafnar á Fáskrúðsfirði og verða nokkur hús þar tengd þegar í haust, eftir tíðarfari. Að auki eru framkvæmdaaðilar farnir að heimsækja Stöðvarfjörð og Breiðdalsvík til húsaskoðunar. Það felur í sér að skoða lagnaleiðir innandyra og samtal við húseigendur um þau mál. Í kjölfarið hefjast framkvæmdir strax og veður leyfir að vori.

Á næsta ári munu þéttbýli Stöðvarfjörður, Breiðdalsvík, Neskaupstaður og Fáskrúðsfjörður verða ljósleiðaravædd. Árið 2026 verða síðan Reyðarfjörður og Eskifjörður ljósleiðaravæddir, en þegar hefur hluti verið ljósleiðaravæddur.

„Okkur mikið kappsmál“

Ragnar Sigurðsson, formaður bæjarráðs segir undirritunina við Mílu marka tímamót fyrir sveitarfélagið. ,,Ljósleiðaravæðing í Fjarðabyggð er eitt stærsta verkefni í uppbyggingu innviða sveitarfélagsins á undanförnum árum. Hún gegnir lykilhlutverki í því öruggri og skilvirnri nettengingu heimila, fyrirtækja og þjónustu yfir allt svæðið. Þetta er okkur mikið kappsmál. Með því að ljósleiðaravæða alla Fjarðabyggð á tveimur árum erum við að stíga mikilvægt skref inn í framtíðina gagnvart búsetukosti, atvinnuuppbyggingu og lífsgæðum,“ segir Ragnar.

Hann segir háhraða fjarskipti auka samkeppnishæfni ólíkra þéttbýliskjarna Fjarðabyggðar og stuðla verulega að auknu fjarskiptaöryggi íbúa og fyrirtækja. „Ljósleiðari er gríðarlega mikilvægur samfélaginu og íbúum, stofnunum og fyrirtækjum í Fjarðabyggð varðandi tengingu við umheiminn. Öflugt netsamband er ein af grunnstoðum lífsgæða, menntunar og atvinnutækifæra. Miklu skiptir að betri nettengingar auka frelsi til búsetu og starfa þar sem fólk sjálft kýs,“ segir Ragnar.

Valborg Ösp Á. Warén, verkefnastjóri ,,Sterks Stöðvarfjarðar“ segir að hér sé um gríðarlega mikilvæga innviðauppbyggingu að ræða fyrir íbúa og fyrirtæki. ,,Í samræmi við áherslur okkar í verkefninu Sterkur Stöðvarfjörður mun uppbygging ljósleiðarans styrkja helstu stoðir samfélagsins, sem eru nauðsynlegar til að Stöðvarfjörður geti þróast  í það öfluga samfélag sem við viljum skapa. Enda er þetta bæði mikilvægt öryggismál og undirstaða nútíma búsetugæða. Það er gífurlega mikilvægt fyrir atvinnuuppbyggingu að hér sé netsamband sem stenst kröfur nútímans.“

Fleiri myndir:
Umfangsmikið átak ljósleiðaravæðingu heimila og fyrirtækja í Fjarðabyggð hrundið af stað
Umfangsmikið átak ljósleiðaravæðingu heimila og fyrirtækja í Fjarðabyggð hrundið af stað

Frétta og viðburðayfirlit