Hugmyndaþing starfsmanna Fjarðabyggðar fer fram í Kirkju- og menningarmiðstöðinni Eskifirði í dag. Þetta er í þriðja sinn sem þessi vettvangur allra starfsmanna hjá sveitarfélaginu kemur saman til að efla vinnustaðinn Fjarðabyggð.
Skemmtilegur staður til að vera á
Hugmyndaþing starfsmanna Fjarðabyggðar fer fram í Kirkju- og menningarmiðstöðinni Eskifirði, kl. 11:00 til 15:00 í dag. Þetta er í þriðja sinn sem þessi vettvangur allra starfsmanna hjá sveitarfélaginu kemur saman til að efla vinnustaðinn Fjarðabyggð.
Fyrsta Hugmyndþingið sló rækilega í gegn sem eini sameiginlegi samstarfsvettvangurinn í fjölkjarna sveitarfélagi. Ári síðar komu starfsmenn aftur saman og stofnuðu sameiginlegt skemmtifélag, auk þess að kryfja Fjarðabyggð til mergjar sem fjölkjarna vinnustað undir handleiðsu Símeyjar, Símenntunarmiðstöðvar Eyjafjarðar.
Í ár verður sjónum áfram beint að vinnustaðnum, en að þessu sinni sem skemmtilegum stað til að vera á og hefur Þekkingarmiðlun sett saman áhugaverða dagskrá í því sambandi, byggða á námskeiðinu Er gaman í vinnunni?
Á meðal þess sem fjallað verður um er Fiskurinn, bók sem vakti mikla athygli á síðasti ári fyrir frumlega nálgun á vinnustaðinn sem annað hvort orkustöð eða orkusugu og Fatan, sem er sömuleiðis þekkt nálgun á líðan fólks í vinnunni. Það eru þau Ingrid Kuhlman og Eyþór Eðvarðsson frá Þekkingarmiðlun sem munu leiða þennan hluta hugmyndaþingsins.
Auk þess að fjalla um vinnuna og Fjarðabyggð sem vinnustað, hafa hugmyndaþingin snúist um skemmtilegar og óvæntar uppákomur og svo verður að sjálfsögðu einnig í ár. Gunnar Sigurðarson, sem vakið hefur m.a. athygli í Hraðfréttum, ætlar að sitja þingið. Gunnar er opinber starfsmaður á lágum launum og mun eflaust ekki láta sitt eftir liggja á Hugmyndaþingi starfsmanna Fjarðabyggðar.