Lesendur Austurfréttar völdu Reyðfirðinginn Tinnu Rut Guðmundsdóttur Austfirðing ársins 2014. Hún segir að þessi mikla viðurkenning hjálpi henni að halda sínu striki í langvinnri baráttu við átröskun.
Tinna Rut Guðmundsdóttir Austfirðingur ársins 2014
Lesendur Austurfréttar völdu Tinnu Rut Guðmundsdóttur frá Reyðarfirði sem Austfirðing ársins 2014, en hún sigraði kosninguna með töluverðum yfirburðum eða 45% greiddra atkvæða. Alls tóku tæplega 1900 manns þátt í þessu þriðja kjöri Austurfréttar á Austfirðingi ársins.
Tinna Rut segir að þetta sé henni mikil viðurkenning, sem hjálpi henni að halda sínu striki, en hún hefur frá því í menntaskóla barist við átröskun. Nýlega birtist í Austurglugganum opinská frásögn Tinnu Rutar, sem vakið hefur verðskuldaða athygli. Greinin var hluti af persónulega uppgjöri hennar við þennan erfiða sjúkdóm, en einnig leið til að hjálpa öðrum. Foreldrar Tinnu Rutar eru Guðmundur Bjarnason og Ásta Jóhanna Einarsdóttir og segist hún þeim afar þakklát fyrir allan stuðninginn.
Tinna Rut tók við viðurkenningu Austurfréttar og gjafabréfi frá Hótel Hallormsstað/Valaskjálf á heimili hennar í Grafarvogi sl. föstudagskvöld.
Sjá viðtal Austurfréttar við Tinnu Rut, Austfirðing ársins 2014