Íþróttamaður Fjarðabyggðar var valinn við hátíðlega athöfn í Skólamiðstöðinni á Fáskrúðsfirði fimmtudaginn 29. desember.
Fyrir valinu varð glímukappinn Ásmundur Hálfdán Ásmundsson Ungmennafélaginu Val.
Íþróttamaður Fjarðabyggðar var valinn við hátíðlega athöfn í Skólamiðstöðinni á Fáskrúðsfirði fimmtudaginn 29. desember.
Fyrir valinu varð glímukappinn Ásmundur Hálfdán Ásmundsson Ungmennafélaginu Val.
Í umsögn frá Ungmennafélaginu Val um Ásmund segir:
Ásmundur Hálfdán Ásmundsson hefur verið í fremstu röð glímumanna síðustu ár og árið 2016 hefur hann verið ósigrandi bæði hérlendis sem erlendis. Ásmundur Hálfdán tók þátt í öllum glímumótum á Íslandi og sigraði þau öll. Hann varð bæði enskur og skoskur meistari í backhold og goueren, en fast var að honum sótt þetta árið í Skotlandi þar sem hann sigraði árið 2015 og það ætluðu heimamenn ekki að láta koma fyrir aftur. Stærsta afrekið er þó án vafa Grettisbeltið sem hann vann fyrstur manna fyrir hönd UÍA. Ásmundur er fyrirmyndar íþróttamaður jafnt innan vallar sem utan. Hann er metnaðarfullur og viljasterkur, en jafnframt alger öðlingur og hvers manns hugljúfi, kurteis og heiðarlegur. Ásmundur er vinsæll þjálfari hjá yngri iðkendum enda léttur í lund og með skemmtilegar æfingar. Hann er ætíð tilbúin að hjálpa til við hvers kyns verkefni sem koma upp og varða glímuna bæði hjá UÍA og hjá Glímusambandi Íslands, en hann hefur m.a. verið fenginn til að vera fararstjóri með unglinga á mótum erlendis.
Aðrir sem tilnefndir voru til íþróttamanns Fjarðabyggðar 2016:
Andri Gunnar Axelsson - Skíðafélagi Fjarðabyggðar
Ásmundur Hálfdán Ásmundsson - Val
Daði Þór Jóhannsson - Leikni
Hákon Huldar Hákonarson - Brettafélagi Fjarðabyggðar
Hlöðver Hlöðversson - Þrótti
Kristófer Páll Viðarsson - Leikni
María Rún Karlsdóttir - Þrótti
Sunneva María Pétursdóttir - Austra
Viktor Páll Magnússon - Golfklúbbi Fjarðabyggðar
Víkingur Pálmason - Þrótti
Auk þess að heiðra ofantalda voru veittar viðurkenningar til þeirra einstaklinga sem hafa tekið þátt í landsliðsverkefnum á árinu. Á árinu 2016 tóku 37 einstaklingar þátt í landsliðsverkefnum, sem var töluvert fleiri en árið áður. Glæsilegur árangur hjá okkar fólki.
Fjarðabyggð óskar Ásmundi og öðrum afreksíþróttamönnum í Fjarðabyggð til hamingju með viðurkenningarnar og velfarnaðar á nýju ári.