mobile navigation trigger mobile search trigger
29.01.2025

Heilsuefling 65+ í Fjarðabyggð

Verkefnið „Fjölþætt heilsuefling 65+ í Fjarðabyggð“ hefur skilað miklum árangri frá upphafi þess, en 194 einstaklingar hafa tekið þátt frá því  verkefnið hófst í ágúst mánuði árið 2022. Markmið verkefnisins er að stuðla að farsælum efri árum með því að bæta lífsgæði og heilsu eldri íbúa sveitarfélagsins í gegnum markvissa hreyfingu og fræðslu.

Heilsuefling 65+ í Fjarðabyggð
Mynd: Janus heilsuefling

Að jafnaði hafa um 100 þátttakendur tekið virkan þátt, og í dag eru 93 þátttakendur virkir. Verkefnið felur í sér fjögur þrep sem eru sex mánaðar tímabil og eru tvö ár í heildina. Þátttakendur geta skuldbundið sig til þátttöku í hálft eða heilt ár í einu. Að þeim loknum er boðið upp á áframhaldandi þjálfun, fræðslu og mælingar til að tryggja að þátttakendur viðhaldi árangri. Frá og með mars 2025 mun Fjarðabyggð taka við verkefninu í samstarfi við Janus heilsueflingu, sem áfram mun veita tækniþjónustu, fræðslu og sérfræðiaðstoð.

Ávinningur heilsueflingarinnar

Niðurstöður mælinga sýna fram á umtalsverðan heilsufarslegan ávinning þátttakenda. Dagleg hreyfing og styrkur þátttakenda hefur aukist verulega, sem og almennt mat þeirra á eigin heilsu. Meðal niðurstaðna kemur fram að konur bæta heilsu sína um 16 stig að meðaltali á tveggja ára tímabili og karlar um 12 stig. Það jafngildir lengingu sjálfstæðrar búsetu um 12–16 ár, sem hefur jákvæð áhrif á bæði lífsgæði þátttakanda og heilsu þeirra í framtíðinni.

Tæknilausnir og bætt aðstaða

Árið 2025 verður innleitt nýtt heilsuapp sem einfaldar skráningar, bætir eftirlit og eykur einstaklingsmiðaða nálgun í þjálfun. Þá hefur aðstaða til æfinga og fræðslu verið bætt til muna, meðal annars með nýjum tækjum og aukinni nýtingu íþróttamannvirkja í sveitarfélaginu.

Alþjóðleg viðurkenning og framtíðarsýn

Verkefnið hefur vakið athygli víða um heim og hlotið viðurkenningar frá Evrópuráðinu og OECD fyrir vísindalegan grundvöll og framúrskarandi árangur. Fjarðabyggð stefnir að því að styrkja verkefnið enn frekar með nýjum innleiðingum og framhaldsstarfi, sem byggir á traustum grunni og góðri samvinnu við íbúa og heilbrigðisstofnanir.

Heilsueflingin hefur sýnt sig vera lykilþáttur í betri heilsu og lífsgæðum íbúa sveitarfélagsins og er langtíma fjárfesting í vellíðan þeirra. Framtíðarsýn verkefnisins er björt og mun sveitarfélagið halda áfram að byggja á þessum árangri og þróa verkefnið áfram í samstarfið með Janus heilsueflingu að nýstárlegum lausnum og áherslum.

Frétta og viðburðayfirlit