Fyrr í dag fór fram undirritun samnings á milli sveitarfélagsins og dýraverndunarfélagsins Villikettir.
Fjarðabyggð undirritar samning við Villiketti á Austurlandi
Markmið samningsins er að félagið sjái um föngun vergangs- og villikatta á svæði sveitarfélagsins. Félagið mun sjá um að fanga ketti sem ýmist eru á vergangi og/eða villtir, koma þeim í öruggt skjól og finna þeim heimili. Villikettir beita svonefndri TNR aðferð (Trap-Neuter-Return) sem þýðir að allir kettir sem verða fangaðir fá einstaklingsmerkingu, gerðir ófrjóir, fá ormalyf og fara svo í heimilisleit. Í þeim tilfellum sem ekki tekst að finna þeim heimili, einhverra hluta vegna, er þeim sleppt út aftur þ.e. ef heilsa þeirra leyfir.
Félagið vinnur að þessu verkefni í sjálfboðaliðastarfi en sveitarfélagið útvegar húsnæði fyrir starfsemina, þar sem kettirnir hafa aðsetur á meðan þeir jafna sig eftir aðgerð og leitað er eftir fjölskyldu handa þeim.
Upphaf áhuga Fjarðabyggðar á samvinnu við félagið var vegna atviks sl. haust þegar félagið náði að fanga vergangskött á Eskifirði. Dýraeftirlit Fjarðabyggðar tók eftir því að kisa var auglýst og að hún væri einstaklingsmerkt. Við leit í skráningakerfi sveitarfélagsins fannst eigandinn og það var mikil gleði þegar eigendur kisu fréttu að hún væri fundin heil á húfi. Hún hafði verið týnd frá því árinu á undan og það frá Reyðarfirði. Með tilkomu Villikatta komst kisi heim til fjölskyldu sinnar.
Ellefu vergangs- og villikettir voru fangaðir af félaginu sl. ár í Fjarðabyggð og náðist að finna þeim öllum ný heimili. Þeir sem hafa áhuga á að vinna sem sjálfboðaliðar hjá Villiköttum á fjörðunum er bent á fésbókarsíðu félagsins, Villikettir Austurlandi, þar má nálgast allar nauðsynlegar upplýsingar um félagið og kisurnar.