Fyrir nokkrum árum var stofnaður sameiginlegur jólasjóður fyrir Fjarðabyggð og Breiðdalsvík. Þökk sé góðum stuðningi fyrirtækja og félagasamtaka, hefur öllum verið veitt aðstoð sem til sjóðsins leita.
Jólasjóðurinn í Fjarðabyggð og Breiðdalsvík
Meginmarkmið jólasjóðsins er að styðja einstaklinga og fjölskyldur sem þurfa á sérstakri aðstoð að halda fyrir jólin.
Styrkurinn felst í úttektarkortum úr matvöruverslunum á svæðinu, en á síðasta ári nutu samtals 169 einstaklingar aðstoðar sjóðsins.
Aðstandendur jólasjóðsins eru Rauðakrossdeildirnar í Fjarðabyggð og á Breiðdalsvík, Þjóðkirkjan, Kaþólska kirkjan, mæðrastyrksnefnd kvenfélgasins Nönnu á Norðfirði og Fjölskyldusvið Fjarðabyggðar. Starfsmaður fjölskyldusviðs heldur jafnframt utan um úthlutanir sjóðsins og sér um að panta úttektarkort.
Fjöldi fyrirtækja og einstaklinga styrkja jólasjóðinn á ári hverju og kunna aðstandendur sjóðsins þeim bestu þakkir fyrir framlög þeirra. Þessi öflugi stuðningur hefur gert sjóðnum kleift að veita öllum stuðning, sem til hans leita, eins og áður segir.
Á meðal helstu styrktaraðila í ár voru auk Fjarðabyggðar, Alcoa Fjarðaál, Afl starfsgreinafélag, Launafl, Eskja, ferðaþjónustan Tanni og Krónan ásamt Rauðakrossdeildum á svæðinu.