Í dag eru 40 ár frá því að vélbáturinn Hrönn SH 149 fórst skammt innan við Vattarnes í Reyðarfirði. Laugardaginn 28. apríl sl. var haldin minningarathöfn á Eskifirði til að minnast þeirra sex sjómanna sem fórust með bátnum.
Minningarathöfn um áhöfnina á Hrönn SH 149
Minningarathöfnin var haldinn að frumkvæði afkomenda þeirra sem fórust í slysinu. Séra Sigurður Rúnar Ragnarsson, sóknarprestur í Neskaupstað, flutti nokkur minngarorð og í kjölfarið var lagður blómsveigur að minnisvarða um drukknaða sjómenn. Að því loknu var boðið til kaffisamsætis í Valhöll þar sem Andri Bergmann Þórhallsson flutti ljúfa tóna.
Vélbáturinn Hrönn SH 149 var eikarbátur, smíðaður á Akureyri árið 1956 fyrir útgerðarfélag í Ólafsvík. Árið 1978 keypti Hafaldan h/f á Eskifirði bátinn og var hann gerður út þaðan eftir það.
Mánudagskvöldið 30. apríl 1979 barst neyðarkall frá Hrönn , en báturinn var þá staddur skammt innan við Vattarnes í minni Reyðarfjarða, á leið til heimahafnar á Eskifirði. Veður var afar slæmt þennan dag, norðanstormur og talsvert frost.
Skipverjar á Magnúsi NK 72 frá Neskaupstað sem verið höfðu Hrönn samferða frá Breiðdalsvík, heyrðu neyðarkallið og höfðu þegar samband við Nesradíó og létu vita af því að Hrönn SH væri í vandræðum. Var Magnúsi NK þegar snúið við og haldið í átt að þeim stað sem Hrönn hafði síðast sést á radar. Þegar þangað var komið , fundust aðeins lóðabelgir, bjarghringir og netaflot.
Björgunaraðgerðir hófust þegar og umfangs mikill leit fór fram næstu daga, bæði af sjó , í fjörum og úr lofti. Lík eins skipverja, Stefáns Guðmundsson stýrimanns, fannst daginn eftir en leit að líkum annara skipverja bar ekki árangur. Leitinni var formlega hætt 10. maí 1979.
Með Hrönn fórust sex skipverjar allir búsettir á Eskifirði. Hrannarslysið varð eðlilega mikið áfall fyrir lítið þorp eins og Eskifijörð. Þeir sem fórust voru: Jóhannes Steinsson, skipstjóri, Stefán Guðmundsson, stýrimaður, Eiríkur Sævar Bjarnason, vélstjóri, Gunnar Hafdal Ingvarsson, Kjartan Grétar Ólafsson, og Sveinn Guðni Eiríksson.