mobile navigation trigger mobile search trigger
24.02.2025

Fjölskyldunefnd heimsótti nýjan búsetukjarna á Reyðarfirði

Fjölskyldunefnd Fjarðabyggðar heimsótti nýjan búsetukjarna á Reyðarfirði sem er nú í byggingu. Byggingin er langt komin og gert er ráð fyrir að fyrstu íbúar geti flutt inn í byrjun sumars. Róbert Óskar tók á móti nefndinni og sýndi þeim húsið, en með í heimsókninni voru Ragnar Sigurðsson, formaður fjölskyldunefndar, Stefán Þór Eysteinsson, Jóhanna Sigfúsdóttir, Tinna Hrönn Smáradóttir, Guðlaug Björgvinsdóttir, áheyrnafulltrúi, Laufey Þórðardóttir, sviðsstjóri fjölskyldusviðs.

Fjölskyldunefnd heimsótti nýjan búsetukjarna á Reyðarfirði
Laufey Þórðardóttir, sviðstjóri fjölskyldusviðs, Stefán Þór Eysteinsson, Jóhanna Sigfúsdóttir, Tinna Hrönn Smáradóttir, Ragnar Sigurðsson og Róbert Óskar

Í búsetukjarninn verða sex einstaklingsíbúðir og skammtímavistun fyrir fötluð börn. Þar verður einnig starfsmannaaðstaða, setustofa fyrir íbúa og gesti og tækjageymsla. Notast verður við nýjustu velferðartækni til að auka öryggi, sjálfstæði og lífsgæði íbúanna.

„Við erum stolt af þessu verkefni. Búsetukjarninn mun bæta þjónustu við fatlað fólk og fjölskyldur þeirra og veita þeim öruggt og gott heimili,“ sagði Ragnar Sigurðsson, formaður fjölskyldunefndar.

Laufey Þórðardóttir bætti við: „Þetta er mikilvægur áfangi fyrir samfélagið okkar. Við höfum lagt áherslu á að hanna aðstöðuna með þarfir íbúanna í huga og tryggja að þeir fái bestu mögulegu þjónustu.“

Byggingin er hluti af samstarfssamningi milli Fjarðabyggðar og R101 ehf., sem var undirritaður á dögunum. Fjarðabyggð mun ekki eiga fasteignina sjálfa en mun reka þjónustuna. Íbúarnir munu leigja íbúðirnar sem í boði verða.

Róbert Óskar segir að mikil áhersla hafi verið lögð á að nýta heimamenn við byggingu búsetukjarnans. „Verktakar hér á svæðinu hafa tekið þessu verkefni með miklum velvilja. Það hefur gengið vonum framar að nýta heimamenn í sem flesta verkþætti, og það skiptir máli fyrir samfélagið okkar,“ sagði hann.

Reyðarfjörður var valinn sem staðsetning vegna miðsvæðisstöðu hans og góðrar aðgengis að nauðsynlegri þjónustu. Einnig gefur nálægðin við Múlaþing möguleika á samstarfi um þjónustu.

Fjarðabyggð og R101 ehf. munu sækja um stofnframlög til HMS, Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga og Fjarðabyggðar til að tryggja fjármögnun verkefnisins.

Með tilkomu þessa búsetukjarna verður þjónusta við fatlað fólk í Fjarðabyggð stórbætt og fleiri fá tækifæri til að búa sjálfstætt með viðeigandi stuðningi.

Fleiri myndir:
Fjölskyldunefnd heimsótti nýjan búsetukjarna á Reyðarfirði
Fjölskyldunefnd heimsótti nýjan búsetukjarna á Reyðarfirði

Frétta og viðburðayfirlit