Í febrúar fór tónsmiðjan Upptakturinn á Austurlandi fram í Studio Silo á Stöðvarfirði. Smiðjan, sem er opin ungmennum í 5.–10. bekk, gaf þátttakendum tækifæri til að þróa tónlistarhugmyndir sínar í skapandi og hvetjandi umhverfi. Í ár var metþátttaka, en alls tóku 18 börn þátt og voru 13 lög send til dómnefndar Upptaktsins í Reykjavík.
Metþátttaka í Upptaktinum á Austurlandi

Eitt lag úr Austurlandssmiðjunni var valið til flutnings á Upptaktstónleikunum í Hörpunni, sem fara fram í Norðurljósasal föstudaginn 11. apríl kl. 17:00. Það var lagið Fearless eftir Þórhildi Ingunni, 12 ára stúlku frá Fellabæ, sem hlaut þann heiður og verður flutt af fagfólki á tónleikunum.
Leiðbeinendur tónsmiðjunnar í ár voru tónlistarfólkið Bella Podpadec, Salóme Katrín og Jón Hilmar. Að auki sá Vinny, hljóðmaður Studio Silo, um tæknilega úrvinnslu og starfsmenn Menningarstofu um utanumhald. Upptakturinn á Austurlandi er samstarfsverkefni Menningarstofu og Sköpunarmiðstöðvarinnar á Stöðvarfirði.
Með þátttöku í Upptaktinum fengu ungmennin ekki aðeins tækifæri til að vinna að eigin lögum heldur einnig að styðja hvert annað í skapandi ferli með jafningjastuðningi. Ungmennin tóku líka þátt í fleiri verkefnum sem tengjast því að skapa tónlist, eins og ljósmyndatöku, viðtölum og vinnusmiðju í plötuumslagagerð.
Tónsmiðjan var einstaklega vel heppnuð og er ljóst að Austurland á bjarta framtíð í tónlist. Upptakturinn er hluti af Barnamenningarhátíð og veitir ungum tónskáldum vettvang til að láta ljós sitt skína á stórum sviðum.