mobile navigation trigger mobile search trigger
19.02.2025

Samtök iðnaðarins funduðu á Austurlandi

Fulltrúar sveitarfélaganna á Austurlandi og Austurbrúar hittu Sigurð Hannesson framkvæmdastjóra Samtaka iðnaðarins á fundi á bæjarskrifstofu Fjarðabyggðar til þess að ræða þau málefni sem eru efst á baugi í atvinnulífi Austurlands. Þá var mikilvægi þess að styrkja innviði í landshlutanum einnig til umræðu, en það eru grundvöllur þess að atvinnulífið og samfélagið geti haldið áfram að blómstra.

Samtök iðnaðarins funduðu á Austurlandi
Fulltrúar sveitarfélaganna á Austurlandi og Austurbrúar ásamt Sigurði hannessyni, framkvæmdarstjóra Samtaka Iðnaðarins

Samtök iðnaðarins eru stærstu samtök atvinnurekenda á Íslandi og félagsmenn eru fyrirtæki og atvinnurekendur hringinn í kringum landið, frá einyrkjum upp í alþjóðleg stórfyrirtæki og er mikilvægi slíkra funda því óumdeilanlegt.

Jóna Árný Þórðardóttir sveitarstjóri Fjarðarbyggðar sagði við tilefnið,,Það er okkur sönn ánægja að taka umræðuna með framkvæmdastjóra Samtaka Iðnaðarins um það fjölbreytta og öfluga atvinnulíf sem blómstrar hér. Svæðið okkar er mikilvægur hlekkur í keðju íslensks iðnaðar og samtalið við Samtök Iðnaðarins sýnir áhuga á þeirri þróun sem hér á sér stað og mikilvægi þess að halda áfram að efla svæðið í þágu alls landsins."

Dagmar Ýr Stefánsdóttir sveitarstjóri Múlaþings lagði áherslu á að „Okkur þykir gott að fá framkvæmdastjóra Samtaka iðnaðarins hingað austur til samtals við okkur um þau brýnu málefni sem við okkur blasa. Ljóst er að til þess að atvinnulíf og samfélag geti haldið áfram að blómstra á Austurlandi þá þarf að hrinda af stað nauðsynlegum samgöngubótum í fjórðungum og gott ef Samtök iðnaðarins geta lagst á árarnar með okkur að koma þeim skilaboðum á framfæri við stjórnvöld. Þá var ánægjulegt að skynja áhugann hjá SI á mögulegri atvinnuuppbygginu á svæðinu.“ 

Undir þetta tók Sigurður Hannesson framkvæmdarstjóri Samtaka iðnaðarins sem sagði: ,,Við áttum gagnlegt samtal um tækifærin á Austurlandi og þann kraft sem býr í samfélaginu. Fyrirtæki vilja stækka auk þess sem áhugi er á nýrri uppbyggingu á svæðinu. Þá ræddum við líka ýmsar áskoranir sem blasa við fólkinu og standa uppbyggingu fyrir þrifum, meðal annars samgöngur sem þarf að bæta innan svæðis sem og við önnur svæði, orkumál og flókið ferli leyfisveitinga og framkvæmda. Innviði á svæðinu þarf sannarlega að efla til að styðja við þá miklu verðmætasköpun sem á sér stað á Austurlandi en um fjórðungur vöruútflutnings á rætur sínar að rekja til Austurlands. Þá var ánægjulegt að sjá og heyra hvernig öflug uppbygging iðnaðar á Austurlandi undanfarin ár og áratugi hefur styrkt grundvöll samfélagsins. Ég vil þakka fólkinu á svæðinu kærlega fyrir gott og uppbyggilegt samtal og við hjá Samtökum iðnaðarins hlökkum til frekara samstarfs.“

Í heimsókn sinni kynnti Sigurður sér einnig Sóknaráætlun Austurlands 

Austurbrú fagnar því að geta átt samtöl við hagsmunasamtök á Íslandi. Fundurinn með Sigurði var góður og við væntum áframhaldandi samstarfs í takt við markmið Sóknaráætlunar, sem miðar að því að efla svæðið sem samkeppnishæfan og sjálfbæran landshluta með fjölbreyttum tækifærum til vaxtar." – Urður Gunnarsdóttir, verkefnastjóri hjá Austurbrú.

Frétta og viðburðayfirlit