Fulltrúar Öryrkjabandalags Íslands (ÖBÍ) heimsóttu Fjarðabyggð mánudaginn 12. febrúar, þar sem þeir funduðu með fulltrúum sveitarfélagsins um málefni fatlaðs fólks. Í heimsókninni voru Andrea Valgeirsdóttir, Rúnar Björn Herrera Þorkelsson og Stefán Vilbergsson frá ÖBÍ. Af hálfu Fjarðabyggðar tóku þátt þau Jóna Árný Þórðardóttir, bæjarstjóri, Aðalheiður Björk Rúnarsdóttir, stjórnandi stoð- og stuðningsþjónustu og Jón Grétar Margeirsson, fasteigna- og framkvæmdafulltrúi.
Fulltrúar ÖBÍ heimsóttu Fjarðabyggð og ræddu málefni fatlaðs fólks

Heimsóknin var hluti af ferð ÖBÍ um Austurland, en fulltrúarnir funduðu sama dag einnig í Múlaþingi. Markmið fundanna var að ræða um velferðarþjónustu, aðgengi og húsnæðismál fatlaðs fólks, ásamt öðrum mikilvægum málum.
Á fundinum var meðal annars rætt um nýjan búsetukjarna og skammtímavistun sem er í byggingu á Reyðarfirði. Teikningar af búsetukjarnanum voru kynntar og rætt var um hvernig þessi þjónusta muni gagnast íbúum. Einnig var farið yfir stöðu fatlaðs fólks í almannavarnarástandi, þar með talið rýmingar og önnur viðbrögð í neyðartilvikum. Þá var rætt um akstursþjónustu á svæðinu og atvinnumöguleika fatlaðs fólks.
Fundurinn var afar gagnlegur og skapaðist þar góður vettvangur til að fara vítt yfir málefni fatlaðs fólks í samhengi við þjónustu og aðgengi í Fjarðabyggð. Þátttakendur voru sammála um mikilvægi þess að halda samtalinu áfram og vinna að úrbótum á þeim sviðum sem rædd voru.