mobile navigation trigger mobile search trigger
18.02.2025

Fulltrúar ÖBÍ heimsóttu Fjarðabyggð og ræddu málefni fatlaðs fólks

Fulltrúar Öryrkjabandalags Íslands (ÖBÍ) heimsóttu Fjarðabyggð mánudaginn 12. febrúar, þar sem þeir funduðu með fulltrúum sveitarfélagsins um málefni fatlaðs fólks. Í heimsókninni voru Andrea Valgeirsdóttir, Rúnar Björn Herrera Þorkelsson og Stefán Vilbergsson frá ÖBÍ. Af hálfu Fjarðabyggðar tóku þátt þau Jóna Árný Þórðardóttir, bæjarstjóri, Aðalheiður Björk Rúnarsdóttir, stjórnandi stoð- og stuðningsþjónustu og Jón Grétar Margeirsson, fasteigna- og framkvæmdafulltrúi.

Fulltrúar ÖBÍ heimsóttu Fjarðabyggð og ræddu málefni fatlaðs fólks
Frá vinstir: Aðalheiður Björk Rúnarsdóttir, stjórnandi stoð- og stuðningsþjónustu, Jón Grétar Margeirsson, fasteigna- og framkvæmdafulltrúi, Rúnar Björn Herrera Þorkelsson, frá ÖBÍ, Jóna Árný, bæjarstjóri, Stefán VIlbergsson, frá ÖBÍ og Andrea Valgeirssdóttir frá ÖBÍ

Heimsóknin var hluti af ferð ÖBÍ um Austurland, en fulltrúarnir funduðu sama dag einnig í Múlaþingi. Markmið fundanna var að ræða um velferðarþjónustu, aðgengi og húsnæðismál fatlaðs fólks, ásamt öðrum mikilvægum málum.

Á fundinum var meðal annars rætt um nýjan búsetukjarna og skammtímavistun sem er í byggingu á Reyðarfirði. Teikningar af búsetukjarnanum voru kynntar og rætt var um hvernig þessi þjónusta muni gagnast íbúum. Einnig var farið yfir stöðu fatlaðs fólks í almannavarnarástandi, þar með talið rýmingar og önnur viðbrögð í neyðartilvikum. Þá var rætt um akstursþjónustu á svæðinu og atvinnumöguleika fatlaðs fólks.

Fundurinn var afar gagnlegur og skapaðist þar góður vettvangur til að fara vítt yfir málefni fatlaðs fólks í samhengi við þjónustu og aðgengi í Fjarðabyggð. Þátttakendur voru sammála um mikilvægi þess að halda samtalinu áfram og vinna að úrbótum á þeim sviðum sem rædd voru.

Frétta og viðburðayfirlit