Menningarstofa Fjarðabyggðar mun, líkt og síðustu ár, halda úti listasmiðjum sumarið 2025 en þar eru í boði skapandi námskeið fyrir börn sem lokið hafa 3.-7. bekk grunnskóla (fædd 2012-2016).
Listasmiðjur Menningarstofu fyrir börn

Boðið verður upp á fjölbreytt námskeið víðsvegar um Fjarðabyggð. Athugið að takmarkaður fjöldi barna kemst í hverja smiðju og fyrstur kemur fyrstur fær. Reiknað er með 12-15 börnum í allar smiðjur.
Í boði verða 4 listasmiðjur:
- MYNDLISTARSMIÐJA - LEIÐ TIL TJÁNINGAR
- VÆTTASMIÐJA - FJÖLLISTASMIÐJA UM NÁTTÚRUVÆTTI
- TÓNLISTARSMIÐJA - TAKTUR OG TÓNEYRA
- KRAKKAVELDI – GJÖRNINGAR OG VALDEFLING BARNA
Til athugunar fyrir foreldra:
- Smiðjurnar eru starfræktar fimm daga vikunnar með einni undantekningu en það verður ekki smiðja á 17. júní. Smiðjurnar eru eftir hádegi, og haldin verður kynning eða sýning á vinnunni í lok námskeiðs. Nánari upplýsingar um námskeiðin eru í lýsingu og verða sendar í tölvupósti til skráðs forráðamanns viku áður en námskeið hefst.
- Við hvetjum fólk til að sækja námskeið milli staða. Athugið að ekki eru skipulagðar samgöngur milli byggðarkjarna fyrir þessi námskeið en við hvetjum foreldra til að skiptast á að keyra á milli og nota almenningssamgöngur eins og hægt er.
- Við biðjum foreldra um að vera tímanlega í að skrá börnin þar sem það er takmarkað pláss í boði. Lágmarksfjöldi á námskeið eru fimm þátttakendur.
- Aðeins þeir sem eru skráðir mega vera á námskeiðunum, ef vinir vilja bætast í hópinn skulu foreldrar hafa samband við leiðbeinanda um möguleika á skráningu.
- Verð fyrir hvert námskeið er 15.000 kr.
- Veittur er systkinaafsláttur (verð: 10.000 kr. fyrir hvert barn)
- Ef barn tekur þátt í fleiri en einu námskeiði er einnig veittur afsláttur (verð: 10.000 kr. fyrir hvert námskeið)
- Börnin skulu mæta með létt nesti og í þægilegum fötum sem mega verða fyrir hnjaski. Við erum oft bæði úti og inni sama daginn og því er gott að vera klæddur eftir veðri.
Nánari upplýsingar um námskeiðin veitir starfsfólk Menningarstofu í síma 470-9061 og á netfanginu menningarstofa@fjardabyggd.is // Fylgist með tilkynningum á facebook síðu Menningarstofu.
UMSÓKNIR
Sótt er um í gegnum íbúagátt Fjarðabyggðar með því að smella hér
LÝSING Á LISTASMIÐJUM MENNINGARSTOFU 2024:
MYNDLISTARSMIÐJA – PERSÓNUSKÖPUN OG ÚRKLIPPUR
- júní til 20. júní kl. 12:30-16:00. Staðsetning: Þórsmörk, Neskaupstað.
Ath. vegna 17. júní sem er á þriðjudegi fellur smiðjan niður þann daginn en bætt er við hálftíma hina fjóra dagana.
Leiðbeinandi: Ra Tack
Ra Tack er myndlistarkvár og myndmenntakennari í Grunnskólanum á Seyðisfirði. Hán hefur sýnt um allan heim og hefur búið og starfað á Seyðisfirði síðustu ár. Ra hefur lagt sitt mark á listasenuna hér á landi með tjáningarfullum og litaglöðum abstrakt verkum sem hafa vakið mikla athygli.
Ra Tack mun leiða myndlistarnámskeið þar sem börnum verður kennt undirstöður myndlistar og gert þeim kleift að finna sínar uppáhalds leiðir til tjáningar, hvort sem það verður í málverkum, samklipp eða öðrum listformum!
VÆTTASMIÐJA
- júní til 27. júní kl. 13:00-16:00. Staðsetning: Braginn við Stríðsárasafnið á Reyðarfirði
Leiðbeinendur: Regn Sólmundur og Alda Villiljós
Í þessari fjöllistasmiðju taka listakvárin Alda Villiljós og Regn Sólmundur á móti ykkur í heillandi ferðalag um heim náttúruvætta. Við skoðum hvaða vættir birtast í þjóðsögum okkar og leggjum leið út í náttúruna til að finna nýja – eða jafnvel endurfinna þá sem hafa gleymst.
Þátttakendur mynda vættina sem við rekumst á og skapa stutta texta, sögur eða ljóð til að kynna nýja vætti til sögunnar. Náttúran er full af furðuverum, og með smá æfingu má sjá þær alls staðar!
TÓNLISTARSMIÐJA
- júní til 4. júlí kl. 13:00-16:00. Staðsetning: Skrúður, Fáskrúðsfjörður.
Leiðbeinendur: Elísabet Mörk og Jónatan
Tónlistarsmiðja þar sem þátttakendur fá að kynnast grunnatriðum tónlistar. Nemendur fá að spila á alls kyns hljóðfæri, kynnast þeim og notkun þeirra, og taka þátt í hópverkefnum sem leggja áherslu á tengslamyndun, samhæfingu, og þjálfun takts og tóneyra. Nemendur læra að tjá sig í orðum, hreyfingum og hljóði og mikilvægi þessara þriggja þátta í tónlist og sköpun. Smiðjan nýtist þeim börnum sem eru að stíga sín fyrstu skref í tónlistarheiminum en einnig fyrir lengra komna.
Elísabet Mörk og Jónatan Emil eru meðlimir hljómsveitarinnar CHÖGMA en þar er Elísabet textasmiður og söngvari og Jónatan trommari. Jónatan hefur starfað sem tónlistarkennari í Fjarðabyggð í tvö ár og árið 2024 gaf Elísabet út ljóðabókina Nokkur Ljóð og Smásögur. Bæði hafa þau verið virk í menningar- og tónlistarlífi Fjarðabyggðar síðustu ár.
KRAKKAVELDI
- júlí - 11. júlí kl. 13:00-16:00. Staðsetning: Sköpunarmiðstöð, Stöðvarfirði.
Leiðbeinendur: Salka Gullbrá, Guðný Hrund og Hrefna frá Krakkaveldi
Krakkaveldi er gjörninga fyrirbæri sem börn skapa fyrir fullorðna. Krakkaveldi telur að fullorðnir gætu haft gagn af því að hlusta meira á börn. Börn eru þriðjungur af mannkyninu öllu, en hafa þó minnsta lýðræðislega vald í samfélaginu okkar. Við erum hér til að breyta því! Við erum börn sem viljum hafa áhrif á heiminn. Við viljum að fullorðnir treysti okkur!
Krakkaveldi hefur verið haldið í Norræna húsinu og fyrir vestan á Hrafnseyri en einnig farið fyrir utan landsteinanna til dæmis síðasta sumar með Barnabarinn á listahátíð í Noregi. Salka, Hrefna & Guðný eru allar með menntun í sviðslistum og hafa breiða reynslu að baki sér í þeim geira og hafa unnið mikið með börnum.
Salka Gullbrá, Guðný Hrund og Hrefna munu leiða smiðju Krakkaveldis sem hluti að sumarnámskeiðum Fjarðabyggðar. Sem snýst um að valdefla börn og láta rödd þeirra heyrast á þeirra eigin forsendum um það sem þau vilja tjá sig um!