mobile navigation trigger mobile search trigger
27.03.2025

Stóra upplestrakeppnin - Lokahátíð

Eftir rúmlega fjögurra mánaða undirbúning í öllum 7. bekkjum grunnskóla Fjarðabyggðar fór úrslitakeppni Stóru upplestrarkeppninnar fram með glæsibrag í Tónlistarmiðstöðinni á Eskifirði í gær. Keppnin, sem er árlegur viðburður og haldin víða um landið, vakti mikla athygli og var fjöldi fólks saman kominn til að fylgjast með frammistöðu nemenda.

Stóra upplestrakeppnin - Lokahátíð

Alls tóku tólf nemendur þátt í úrslitakeppninni að þessu sinni, en þeir höfðu áður staðist harða undankeppni sem fram fór í öllum grunnskólunum í sveitarfélaginu. Markmið keppninnar er að efla færni nemenda í upplestri á íslensku og þjálfa þá í þáttum eins og túlkun texta, framkomu, raddstyrk og tengingu við áheyrendur. Allir keppendur lásu fyrst brot úr bókinni „Drauminum“ eftir Hjalta Halldórsson og fylgdu því eftir með ljóðalestri úr tveimur mismunandi ljóðum að eigin vali.

Einnig var boðið uppá tónlistaratriði frá nemendum Tónlistarskóla Fjarðabyggðar. Þórdís Emma Eyþórsdóttir spilaði á píanó og svo sungu þær Arna Dröfn, Jóna Sigrún og Steinunn Una  - Lóan er kominn með undirspil frá Evu Björg kennara tónlistarskólans. Að lokum spilaði Elmar Rafn Stefánsson lagið Enter Sandman/Metalica á rafmagnsgítar.

Dómnefndin stóð frammi fyrir krefjandi verkefni þar sem allir keppendur sýndu einstaklega góða frammistöðu. Að mati formanns dómnefndar var mjög erfitt að komast að niðurstöðu um hverjir ættu að hljóta efstu sætin. Að lokum varð niðurstaðan sú að Óttar Eiríksson, fulltrúi Eskifjarðarskóla, hreppti fyrsta sætið með einstaklega áhrifamiklum og öruggum upplestri. Í öðru sæti hafnaði Svavar Óli Garðarsson frá Fáskrúðsfjarðarskóla og Emilía Ingólfsdóttir frá Grunnskóla Reyðarfjarðar hafnaði í því þriðja með virkilega góðri túlkun sinni.

Viðurkenningar og verðlaun voru afhent af bæjarstjóra Fjarðabyggðar, Jónu Árnýju Þórðardóttur. Allir þátttakendur fengu blóm og gjafir að launum fyrir framlag sitt, auk sérstakra verðlauna fyrir þau þrjú efstu sæti.

Jóna Árný Þórðardóttir, bæjarstjóri Fjarðabyggðar, var ánægð með árangur keppenda og sagði eftir keppnina:

„Það er alltaf ánægjulegt að sjá hversu miklum framförum nemendur hafa tekið á þessum mánuðum og hversu mikla áherslu þau leggja á vandaðan upplestur. Þetta er mikilvæg keppni sem styrkir sjálfstraust og málvitund barna á mikilvægum aldri og ég er afar stolt af öllum þátttakendum.“

Viðburðurinn gekk vel fyrir sig og var greinilegt að mikill metnaður hafði verið lagður í undirbúning og framkvæmd. Aðstandendur keppninnar telja að Stóra upplestrarkeppnin verði áfram fastur liður í menningarstarfi skólanna í Fjarðabyggð enda hafi hún sýnt og sannað mikilvægi sitt fyrir málþroska og tjáningarhæfileika ungra nemenda.

Frétta og viðburðayfirlit