Hjúkrunarheimilin í Fjarðabyggð, Uppsalir á Fáskrúðsfirði og Hulduhlíð á Eskifirði, hlutu á dögunum styrk úr Rannsóknarsjóði Hrafnistu að upphæð 200.000 kr. í verkefnið "Ungur nemur - gamall temur".
Markmið verkefnisins er að fá grunnskólabörn í heimsókn á hjúkrunarheimilin og taka þar þátt í lestrarátaki. Börnin æfa sig í lestri með því að lesa fyrir íbúa sem veita þeim leiðsögn á meðan á lestrinum stendur. Margvíslegur ávinningur verður af verkefninu; börnin eflast í lestri, íbúar fá heimsóknir grunnskólabarna sem dregur úr einveru auk þess sem þeir taka þátt í uppbyggingarverkefni með börnum.
Með verkefninu er verið að tengja saman kynslóðir, skapa notalegan vettvang til eflingar á yngstu og elstu kynslóðum samfélagsins og fá ungviðið í reglulegar heimsóknir.