Í tilefni átta hundraðasta ramps á Íslandi verður vígsla við Hótel Berjaya, Egilsstöðum, fimmtudaginn 31.ágúst klukkan 11:40 til 12:10.
800 Rampar
Verkefnið Römpum upp Ísland hefur þann mikilvæga tilgang að greiða aðgengi hreyfihamlaðra að þjónustu, afþreyingu og þátttöku og stuðlar þannig að auknu jafnrétti allra. Römpunum er ætlað að veita hreyfihömluðum aukið aðgengi að verslun og þjónustu. Stofnaður var sjóður með aðkomu fyrirtækja og aðila sem stendur straum af kostnaði fyrir verslunar- og veitingahúsaeigendur. Rampar eru settir upp í góðu samstarfi eigenda bygginga og skipulagsyfirvalda í hverju sveitarfélagi.
Rampar hafa verið settir upp víða um land frá því að verkefnið hófst árið 2022 þegar fyrsti rampurinn var opnaður í Hveragerði í maí 2022. Árið 2021 voru 100 rampar settir upp í verkefninu Römpum upp Reykjavík.
Ríkisstjórn mun ávarpa og heiðra átakið en Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra og Margrét Lilja Aðalsteinsdóttir, formaður Sjálfsbjargar munu taka til máls.
Íbúar eru hvattir til að sýna þessu merka átaki stuðning og þiggja léttar veitingar, fyrir utan Hótel Barjaya.