mobile navigation trigger mobile search trigger
06.02.2025

Fjarðabyggð og Píeta samtökin undirbúa samstarfssamning

Fjarðabyggð og Píeta samtökin undirbúa nú samstarfssamning sem tryggir fasta viðveru og reglubundna þjónustu samtakanna í sveitarfélaginu. Af því tilefni kom Ellen Calmon, framkvæmdastýra Píeta samtakanna, til Fjarðabyggðar og kynnti starfsemi samtakanna.

Píeta samtökin veita sérhæfða aðstoð fyrir einstaklinga í sjálfvígsvanda með sjálfsskaða og aðstandendur þeirra. Með samningnum verður þjónustan aðgengileg íbúum Fjarðabyggðar á stöðugum grundvelli.

Fjarðabyggð og Píeta samtökin undirbúa samstarfssamning
Frá vinstri: Aðalheiður B. Rúnarsdóttir, stjórnandi stoð-og stuðningsþjónustu, Laufey Þórðardóttir, sviðstjóri fjölskyldusviðs, Ellen Calmon, framkvæmdastýra Pieta samtakanna, Jóna Árný Þórðardóttir, bæjarstjóri, Ragnar Sigurðsson, formaður fjölskyldunefndar (D) og Kristinn Þór Jónasson, bæjarfulltrúi (D)

„Þetta er mikið framfaraskref í geðheilbrigðismálum. Píeta samtökin sinna mjög metnaðarfullu meðferðarúrræði og forvarnarstarfsemi gegn sjálfsvígum, sjálfsvígshugsunum og sjálfsskaða. Með samningnum við Fjarðabyggð verður tryggð föst viðvera og reglubundin þjónusta í sveitarfélaginu, sem mun styrkja aðgengi að nauðsynlegri aðstoð fyrir bæði þá sem glíma við erfiðleika og aðstandendur þeirra,“ sagði Ragnar Sigurðsson, formaður fjölskyldunefndar Fjarðabyggðar.

„Píeta samtökin vilja hrósa bæjarráði Fjarðarbyggðar fyrir að taka þetta mikilvæga skref í bættri geðheilbrigðisþjónustu á Austurlandi sem sýnir ríkan vilja þeirra til að styrkja samfélagið með afgerandi hætti. Geðheilbrigði er grunnheilbrigði sem er svo mikilvægt að hlúa að svo manneskjan geti blómstrað og tekið þátt virkan þátt í samfélaginu. Það verður sérstaklega ánægjulegt að koma með þjónustu Píeta samtakanna austur.“ Segir Ellen Calmon framkvæmdastýra Píeta samtakanna.

Samstarfið er liður í aukinni áherslu Fjarðabyggðar á geðheilbrigðismál og markar mikilvægt skref í bættri þjónustu við íbúa.

Frétta og viðburðayfirlit