Hákon Ásgrímsson hefur verið ráðinn í starf framkvæmdastjóra Fjarðabyggðarhafna og Valgeir Ægir Ingólfsson hefur verið ráðinn nýr atvinnu- og þróunarstjóri Fjarðabyggðar.
Nýr framkvæmdastjóri Fjarðabyggðarhafna og nýr atvinnu- og þróunarstjóri
Hákon er með mastersgráðu í fjármálahagfræði og rafmagnsverkfræði og hefur undanfarið starfað hjá verkfræðifyrirtækinu Fluor þar sem hann hefur veitt skrifstofu þess á Íslandi forstöðu auk þess að starfa við verkefnastjórn á fjárfestingarverkefnum í Álveri Alcoa-Fjarðaáls. Hákon hefur áður starfað m.a. sem verkfræðingur og verkefnastjóri hjá verkfræðistofunum Mannviti og Rafhönnun. Hákon er giftur Önnu Elínu Jóhannsdóttur, verkfræðingi, og eiga þau þrjú börn.
Meðal helstu verkefna framkvæmdastjóra Fjarðabyggðarhafna er dagleg stjórn hafnanna í umboði hafnarstjórnar. Hann hefur m.a. umsjón með fjármálum, rekstri, viðhaldi og nýbyggingum hafnanna og annast samskipti við hagsmunaaðila. Starf framkvæmdastjóra heyrir beint undir bæjarstjóra. Hákon mun hefja störf í byrjun árs 2018.
Þá hefur Valgeir Ægir Ingólfsson verið ráðinn Atvinnu-og þróunarstjóri Fjarðabyggðar og mun hefja störf í byrjun desember. Valgeir er ferðamálafræðingur (BA) frá Háskólanum á Hólum og hefur stundað meistaranám í Mennta og menningarstjórnurvið Háskólann á Bifröst og í Fiskeldisfræði við Háskólann á Hólum.
Valgeir hefur margþætta reynslu úr atvinnulífinu, starfað m.a. sem verkefnastjóri hjá Atvinnuþróunarfélagi og fræðslumiðstöð Vestfjarða. Þá hefur hann setið í nefndum á vettvangi ríkis og sveitarfélaga.
Við óskum þeim Hákoni og Valgeiri til hamingju og bjóðum þá velkomna til starfa.