mobile navigation trigger mobile search trigger
09.01.2017

Afar vel heppnað hugmyndaþing

Það kenndi ýmissa grasa á árlegu hugmyndaþingi starfsmanna Fjarðabyggðar sem fór fram í Tónlistarmiðstöð Austurlands á laugardag.

Afar vel heppnað hugmyndaþing
Sigríður Hulda Jónsdóttir

Yfirskrift þingsins var Hversu gaman er að vera þú? og leiddi Sigríður Hulda Jónsdóttir þátttakendur í gegnum mikilvægi jákvæðni, hugarfars og þess að greina eigin styrkleika. Fór hún jafnframt yfir hvernig þessir þættir hafa áhrif á starfsánægju á vinnustað. Lögð var áhersla á að hver og einn tæki eitthvað með sér út úr þinginu og settu allir sér markmið í lokin sem vinna á að í framhaldinu.

Hæfileikaríkt heimafólk kom einnig við sögu. Jón Hilmar Kárason lék ljúfa tóna í upphafi þings og flutti hugvekju sem tengist efni þingsins. Hann sameinaði hópinn síðan í fjöldasöng á laginu Traustur vinur.

Þær Anna og Svava hjá Yoga og sport á Eskifirði hófu dagskrána að nýju eftir hádegishlé með því að kynna þátttakendur fyrir ýmsum yogaæfingum. Æfingarnar voru þess eðlis að auðvelt er að gera þær í dagsins önn.

Ólafur Freyr Ólafsson uppistandari lauk þinginu þannig að allir fóru heim með bros á vör eftir vel heppnaðan dag.

Frétta og viðburðayfirlit