Mikill uppgangur hefur verið í byggingarlóðum í Fjarðabyggð síðustu ár. Í september 2021 voru 30 íbúðir í byggingu og á sama árið 2022 voru þær 39 eða 30% fleiri. Íbúum Fjarðabyggðar hefur fjölgað um rúm 6,2% á síðustu fimm árum.
Mikill uppgangur í Fjarðabyggð
Þrátt fyrir fjölgun íbúða í byggingu er áfram skortur á íbúðum og mun það verða ein helsta áskorun sveitarfélagsins í þeim efnum.
Á Búðavegi 57 á Fáskrúðsfirði er áhugaverð lóð sem er laus. Lóðin er skipulögð sem einbýlishúsalóð í deiliskipulagi 2013. Heimilt að reisa tvílyft einbýlishús með kjallara á lóð ásamt stakstæðum eða innbyggðum bílskúr. Hámarks grunnflötur húss er 100m2 og stakstæðs bílskúrs er 45m2. Kvöð er um aðgengi frá Oddeyrargötu að suðurlóð. Mænisstefna og þakform skal vera í samræmi við Búðargötu 55/Odda. Hámarshæð í mæni er 7,8m. Smábátahöfnin í bakgarðinum veitingastaður við hliðina. Ólíklegt væri að einbýlishúsalóð væri skipulögð á reiti sem þessum í dag. Staðsetning og útsýni gerist varla betra en þetta!
Atvinnulífið í Fjarðabyggð byggir á sterkum og fjölbreyttum stoðum. Nokkur öflugustu sjávarútvegsfyrirtæki landsins eru staðsett í Fjarðabyggð, álverrekstur AlcoaFjarðaráls og öflugri þjónustu við þessi fyrirtæki. Á síðustu árum hefur uppbygging laxeldis verið töluverð í sveitarfélaginu og mun fyrirsjáanlega vaxa töluvert á komandi árum. Ferðaþjónusta hefur ekki verið stór hluti af atvinnulífi Fjarðabyggðar en fer nú vaxandi. Atvinnuástand er mjög gott í Fjarðabyggð og hefur verið um árabil, með því lægsta á öllu landinu.
Á dögunum var svo undirritaður lóðarleigusamningur við Copenhagen Infrastructure Partners (CIP) um lóð á Reyðarfirði undir rafeldsneytisverksmiðju. Um er að ræða fyrsta lóðarleigusamning á Austurlandi undir slíka starfsemi.
Atvinnutekjur íbúa í Fjarðabyggð voru þær hæstu í landinu árið 2021 samkvæmt tölum Byggðastofnunar eða 5,1 milljón króna á mann.