Bæjarráð Fjarðabyggðar harmar og lýsir yfir miklum áhyggjum af ófjármagnaðri samgönguáætlun Alþingis.
Áhyggjur af samgönguáætlun Alþingis
Fyrst og fremst þarf að horfa til öryggis vegfaranda, en alkunna er að mikil og vaxandi umferð er um allt land um þessar mundir vegna aukins ferðamannastraums til landsins og aukinna flutninga á vegum. Í þessu efni er vert að nefna vegarkafla á þjóðvegi 1 sem ekki hafa verið malbikaðir, en vegarkaflinn um Berufjörð er á köflum varhugaverður og nánast ófær við ákveðin skilyrði. Þá ber einnig að nefna veginn til Borgarfjarðar Eystri, en mikilvægi vegarins hefur aukist á undanförnum árum vegna aukinnar umferðar til staðarins. Þá vill bæjarráð benda á að eitt af sex stefnumálum Sambands sveitarfélaga á Austurlandi leggur áherslu á lagfæringu þeirra vegarkafla sem ekki höfðu bundið slitlag. Eru þingmenn hér með hvattir til að leita leiða til þess að koma auknu fjármagni til vegakerfis landsins, m.a. með öryggisjónarmið að leiðarljósi sem og að horfa til langtímasjónarmiða við uppbyggingu innviða landsins í heild.