Umfang bótaskyldra mála eftir ofsaveðrið sem gekk yfir Austfirði í lok desember liggur í stórum dráttum fyrir hjá Viðlagatryggingu Íslands. Snör viðbrögð þjónustumiðstöðvar Fjarðabyggðar við að halda ræsum opnum kom í veg fyrir enn frekara tjón í Neskaupstað.
Allt að 25 bótaskyld mál
Um 60 manns ræddu við fulltrúa Viðlagatryggingar Íslands í viðtalstímum sem skipulagðir voru í bæjarkjörnum Fjarðabyggðar í kjölfar ofsaveðursins sem gekk yfir 28. og 30. desember sl.
Miðað við fyrirliggjandi upplýsingar, gerir Viðlagatrygging Íslands ráð fyrir að fjöldi bótaskyldra tjóna nemi 20 til 25 málum. Samkvæmt fréttatilkynningu sem VÍT sendi frá sér í gær, fellur það tjón undir bótaskyldu stofnunarinnar sem varð af völdum vatnsflóða, krapaskriða eða sjávarflóða og ekki er unnt að kaupa tryggingar gegn.
Í nær öllum tilvikum varð tjónið í Fjarðbyggð, utan eins í Breiðdalsvík. Tilkynnt tjón til stofnunarinnar varða fasteignir, lausafé, vatnsveitur, fráveitur og hafnarmannvirki.
Í Neskaupstað er nær eingöngu að ræða um tjón vegna vatnsflóða af völdum ofsarigningar og snjóleysinga 28. desember. Lækir í hlíðinni ofan og innan við bæinn flæddu margir yfir bakka sína, í sumum tilvikum vegna aurskriða sem stífluðu lækina.
Þá yfirfylltist fráveitukerfi bæjarkjarnans, auk framburðar sem barst inn í kerfið. Þjónustumiðstöð Fjarðabyggðar lagði mikla vinnu í að halda ræsum opnum, sem skilaði að mati VÍT þeim árangri að skemmdir á vegum eru í lágmarki og forðaði einnig tjóni sem ella hefði orðið á eignum.
Á Eskifirði varð tjón fyrst og fremst vegna vatnsflóðs af völdum sjávar þann 30. desember. Lagðist þar á eitt stíf austanátt, óvenjulágur loftþrýstingur og há sjávarstaða. Töluvert tjón varð á fasteignum við sjávarsíðuna, aðallega á sjóhúsum. Einnig varð minniháttar tjón á hafnarmannvirkjum og líklega einnig á fráveitukerfi.
Þá urðu á Fáskrúðsfirði og stöðvarfirði minniháttar tjón á sjóhúsum sem VÍT bætir. Á Stöðvarfirði var aðallega um foktjón að ræða, en slík tjón falla ekki undir stofnunina.
Viðlagatrygging Íslands fréttatilkynning 12. janúar 2016.pdf