mobile navigation trigger mobile search trigger
24.02.2023

Almannavarnir: Askja er vel vöktuð

Almannavarnanefnd Austurlands hefur fundað reglulega frá því í mars 2022 með starfsmönnum Veðurstofu vegna jarðhræringa og landriss við Öskju sem hófst í ágúst 2021. Að auki sendir Veðurstofan vikulega upplýsingapóst um stöðu eldstöðva á landinu með niðurstöðum mælinga og vöktunar. Almannavarnir og sveitarfélög eru því vel upplýst um stöðu mála.

Almannavarnir: Askja er vel vöktuð

Svæðið allt kringum Öskju er vaktað með jarðskjálfta- og aflögunarmælum Veðurstofu og fylgst með hreyfingum allan sólarhringinn.

Í síðustu viku fór hópur sérfræðinga Veðurstofunnar og Jarðvísindastofnunar HÍ í könnunarflug yfir Öskju með TF-SIF flugvél Landhelgisgæslunnar, vegna bráðnunar íss á Öskjuvatni. Í kjölfar þessa flugs sendi Veðurstofan út pistil á heimasíðu sinni þar sem staðan var rakin. Engin skýr merki um aukna virkni í Öskju | Fréttir | Veðurstofa Íslands (vedur.is)

Fundur var síðastliðinn þriðjudag með starfsmönnum Veðurstofu og almannavarnanefndar á Austurlandi. Þar kom m.a. fram að búist sé við að aðdragandi að gosi yrði allnokkur, með aukinni virkni í daga eða vikur. Ekki er þó hægt að útiloka að fyrirvarinn yrði styttri. Engin skýr merki eru enn um að virkni sé að aukast.

Askja er virk eldstöð og í ljósi landriss og jarðhræringa er ekki óvarlegt að íbúar, sveitarfélög og fyrirtæki séu við því búin að gos geti hafist.  Leiðbeiningar frá ríkislögreglustjóra og almannavörnum varðandi viðbúnað og varnir vegna öskufalls má finna hér; Öskufall | Almannavarnir

Ábendingar til almannavarna á Austurlandi eða fyrirspurnir er hægt að senda á netfangið austurland@logreglan.is

Frétta og viðburðayfirlit