Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri, hefur í vikunni, ferðast á milli stofnana í sveitarfélaginu og fært starfsmönnum jólagjöf frá Fjarðabyggð.
Árleg jólaheimsókn bæjarstjóra
Þessi skemmtilega hefð hefur orðið til á undanförnum árum og eru orðin ómissandi hluti af starfi bæjarstjóra á aðventunni. Í þessum heimsóknum gefst bæjarstjóra kærkomið tækifæri til að hitta sem flest starfsfólk og færa þakkir fyrir vel unnin störf á árinu sem er að líða.
Hringferðin að þessu sinni tók tæplega tvo daga og komið var við í flestum stofnunm og fjölmörgum starfsmönnum afhentar jólagjafir. „Öflugur mannauður er hverju sveitarfélagi mikilvægur og því er svo sannarlega til að dreifa í Fjarðabyggð. Sú öfluga þjónusta sem veitt er af sveitarfélaginu hvílir á herðum starfsfólks bæjarins og góðan árangur á ýmsum sviðum ber að þakka sérstaklega fyrir," segir Páll Björgvin.
Jafnframt hefur sú hefð myndast að bæjarstjóri afhendi einnig við sama tækifæri líkamsræktar- og námskeiðsstyrk starfsmanna, enda þótt styrkurinn hafi ekkert með jólagjöf sveitarfélagsins að gera."Hugsunin er nú aðallega sú að minna á styrkinn, sem nýta má til að greiða niður árgjald vegna áhuga- og tómstundamála á sífellt breiðara sviði. Þeim hefur farið hratt fjölgandi sem nýta sér styrkinn, sem er afar jákvæð þróun."