mobile navigation trigger mobile search trigger
26.03.2021

Ársreikningur Fjarðabyggðar 2020 tekinn til fyrri umræðu í bæjarstjórn

Fimmtudaginn 25. mars 2020 fór fram fyrri umræða í bæjarstjórn Fjarðabyggðar um ársreikning bæjarfélagsins fyrir árið 2020. Ársreikningurinn hefur verið áritaður af bæjarráði og bæjarstjóra. Samkvæmt sveitarstjórnarlögum skal fjalla um ársreikninginn á tveimur fundum í bæjarstjórn. Bæjarstjórn samþykkti að vísa ársreikningnum til síðari umræðu og er áformað er að hún verði þann 15. apríl næstkomandi. Ársreikninginn má finna hér.

Ársreikningur Fjarðabyggðar 2020 tekinn til fyrri umræðu í bæjarstjórn

Í ársreikningi Fjarðabyggðar 2020 kemur styrkur sveitarfélagsins vel fram þrátt fyrir COVID-19 faraldurinn. Fjarðabyggð tók meðvitaða ákvörðun um að auka rekstrarútgjöld og fjárfestingar til að bregðast við þeirri kreppu sem við blasti í kjölfar heimsfaraldursins m.a. með aukningu rekstrarútgjalda í formi tímabundina ráðninga og annars rekstrarkostnaðar en aukning frá upphaflegri fjárhagsáætlun nam um 200 millj. kr. auk þess sem fjárfestingar voru auknar um 821 millj. kr. frá upphaflegri fjárfestingaráætlun á árinu 2020.   Fjarðabyggð byggir á sterkum tekjugrunni og sterkum atvinnugreinum í sjávarútvegi, áliðnaði og þjónustugreinum.  Niðurstaða ársreiknings gefur fyrirheit um áframhaldandi kraftmikið samfélag til framtíðar líkt og áður.

Á heildina litið er rekstrarafkoma Fjarðabyggðar góð miðað við árferði, rekstrarniðurstaða ársins hjá samstæðu A og B hluta var jákvæð um 211 millj. kr. en rekstrarniðurstaða A hluta var jákvæð um 52 millj. kr.

Rekstrarniðurstaða, án afskrifta og fjármagnsliða, hjá samstæðu A og B hluta var jákvæð sem nam 1.521 millj. kr. á árinu.  Þar af var rekstrarniðurstaða í A hluta 124 millj. kr.  Framlegð eða EBITDA nam 15,3% hjá samstæðu og rúmlega 2% í A hluta.  Rekstrarniðurstaða bæði A hluta og B hluta litast af því að Rafveita Reyðarfjarðar var seld á árinu.  Söluverð eigna Rafveitunnar nam um 598 milljónum króna og eigið fé Rafveitunnar er fært til tekna í A hluta. Bókfærður söluhagnaður veitunnar nam um 441 millj.kr.

Rekstrartekjur, samstæðu A og B hluta sveitarfélagsins, námu samtals 8.706 millj. kr. en þar af námu rekstrartekjur A hluta 6.072 millj. kr.  Til samanburðar voru rekstrartekjur samstæðu 8.471 millj. kr. árið 2019.  Rekstrartekjur samstæðu hækkuðu um 2,8% á milli ára.

Rekstrargjöld, án afskrifta, í samstæðu A og B hluta námu 7.373 millj. kr. og þar af voru rekstrargjöld A hluta 5.948 millj. kr.  Breyting launa, lífeyrisskuldbindinga og launatengdra gjalda í samstæðu til hækkunar nam um 15,5% eða um 682 millj. kr. á milli áranna 2019 og 2020 og þar af í A hluta um 510 millj. kr. en reiknuð lífeyrisskuldbinding þ.a. hækkaði um 65 m.kr..  Annar rekstrarkostnaður samstæðu lækkaði um 316 millj. kr. milli áranna 2019 og 2020 og nam 2.374 millj. kr. á árinu 2020.  Annar rekstrarkostnaður lækkaði um 11,7% milli ára.

Fjármagnsgjöld umfram fjármunatekjur, í samstæðu A og B hluta, námu 386 millj. kr. samanborið við 334 millj. kr. árið 2019.

Fjárfestingahreyfingar í samstæðu A og B hluta námu samtals 1.567 millj. kr. á árinu 2020 samanborið við 439 millj. kr. árið áður.  Helstu fjárfestingar ársins voru vegna hafnarmannvirkja, skólabygginga, íþróttamannvirkja, gatnagerðar og veituframkvæmda.  Söluverð rekstrarfjármuna námu um 730 millj.kr. samanborið við 128 millj.kr. árið 2019.

Afborganir langtímalána og leiguskuldbindinga námu 1.248 millj. kr. á árinu.  Lántökur ársins námu um 1.468 millj. kr.  Handbært fé hækkaði á árinu um 48 millj. kr. og nam 180 millj. kr. í árslok 2020.  Eldri lánasamningum fyrir um 700 millj. kr. voru endurfjármagnaðir á árinu með nýjum lengri lánasamningum.  Í árslok voru fjárhagsskilyrði um veltufé frá rekstri í nokkrum lánasamningum að fjárhæð um 1.000 millj. kr. brotin.  Samið hefur verið við lánveitanda um að lánasamningar standi óbreyttir en það samkomulag var gert eftir reikningsskiladag.  Á grundvelli þessa fyrirhuga endurskoðendur að árita ársreikninginn með fyrirvara þegar til síðar umræður kemur, í samræmi við við ákvæði laga um ársreikninga. 

Eignir sveitarfélagsins voru í lok árs 2020 samtals að fjárhæð 16.089 millj. kr., þar af námu fastafjármunir 14.981 millj. kr.

Heildarskuldir og skuldbindingar námu um 10.007 millj. kr. og hækkuðu á milli ára um 333 millj. kr.  Langtímaskuldir við lánastofnanir og leiguskuldir námu um  5.450 millj. kr., skammtímaskuldir 1.711 millj. kr. og  lifeyrisskuldbinding og aðrar skuldbindingar námu um 2.846 millj. kr. 

Eigið fé samstæðu var 6.083 millj. kr. í árslok 2020 samanborið við 5.872 millj. kr. í árslok 2019.  Breytingin á eigin fé skýrist af rekstrarniðurstöðu ársins.

Nánari upplýsingar veita Jón Björn Hákonarson bæjarstjóri og Snorri Styrkársson fjármálastjóri í síma 470-9000.

Frétta og viðburðayfirlit