Hundraðasta og áttunda Íslandsglíman fór fram í Íþróttahúsi Kennaraháskólans í Reykjavík í dag. Reyðfirðingarnir Kristín Embla Guðjónsdóttir og Ásmundur Hálfdán Ásmundsson báru sigur úr bítum í dag og voru krýnd glímudrottning og glímukóngur Íslands.
Íslandsglíma í dag - Glímukóngur og glímudrottning Íslands 2018 frá Reyðarfirði
Kristín Embla hefur um nokkurt skeið verið ein efnilegasta glímukona landsins og í dag fór hún taplaus í gegnum allar sínar glímur , hlut 5 og 1/2 vinning af sex mögulegum og hlaut að launum Freyjumennið og sæmdarheitið glímudrottning Íslands í fyrsta skipti. Auk Kristínar kepptu þrjár ungar og efnilegar glímukonur frá Reyðarfirði á mótinu og stóðu þær sig með prýði.
Ásmundur Hálfdán hefur um árabil verið sterkasti glímumaður Íslands og í dag varði sigraði hann Íslandsglímuna í í þriðja sinn. Ásmundur sigraði alla andstæðinga sína á mótinu í dag og að mót loknu fékk hann Grettisbeltið afhent og um leið sæmdarheitið glímukóngur Íslands.
Íslandsglíman í ár var afar jöfn og skemmtileg og áhorfendur urðu vitni að spennandi keppni frá upphafi til enda, bæði í karla og kvennaflokki. Heiðursgestir mótsins voru Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands og Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningamálaráðherra og sá þau um að afhenda keppendum verðlaun í mótslok.
Við óskum Kristínu Emblu og Ásmundi Hálfdáni innilega til hamingju með frábæran árangur.