mobile navigation trigger mobile search trigger
29.08.2024

Ástin, bjartsýnin og andskotans blaðrið í fólkinu

Haustdagskrá Tónlistarmiðstöðvarinnar hefst með glæsibrag fimmtudaginn 5. september kl. 20:00 þegar Sunna Gunnlaugs píanisti og Marína Ósk Þórólfsdóttir söngkona koma þar fram og leika nýleg lög Sunnu við ljóð Jóns úr Vör en einnig verða leikin þekkt lög úr jazzbiblíunni sem og verk eftir Marínu. Tónlistinni er best lýst sem hugljúfum ballöðum og grípandi latínsmellum og sveiflu.

Ástin, bjartsýnin og andskotans blaðrið í fólkinu
Sunna Gunnlaugs og Marína Ósk
Fyrir tónleikana munu þær heimsækja tvo skóla í Fjarðabyggð og leika tónlist sína, Einnig munu þær heimsækja íbúa Hulduhlíðar og leika ljúfan djass með síðdegiskaffinu.
Miðaverð er 3000 kr. og frítt inn fyrir 16 ára og yngri. Miðasala er við innganginn og það er posi á staðnum.
Við hvetjum unga hljóðfæranema sem og eldri til að mæta á þessa spennandi tónleika með þessum frábæru tónlistarkonum.
- - -
Sunna Gunnlaugsdóttir, jazzpíanisti og tónskáld hefur verið í fararbroddi íslensks jazz síðustu áratugi. Hún hefur komið fram í Bandaríkjunum, Japan, Kanada, Rússlandi og 15 löndum Evrópu. Hún hefur gefið út 12 geisladiska sem allir hafa fengið hlýjar móttökur jazzmiðla og unnið til verðlauna hér á landi og erlendis. Sunna hefur skrifað tónlist fyrir Stórsveit Reykjavíkur, sjónvarpsþætti, kvikmyndir sem og tónlist fyrir tríó sitt, dúó með Juliu Hülsmann og fleira. Hún hefur hlotið íslensku tónlistarverðlaunin sem flytjandi ársins tvisvar og fengið fjölmargar tilnefningar. Sunna var Bæjarlistamaður Kópavogs 2021. Sunna hefur verið ötull tónleikahaldari og lagt mikið af mörkum til að gera konur í jazzi sýnilegar á Íslandi. Hún hefur setið í stjórn Jazzhátíðar Reykjavíkur, stofnað tónleikaraðir og nú síðast skipulagt alþjóðlegu hátíðina Freyjufest sem fram fór í Hörpu í janúar á þessu ári. Sunna hefur setið í stjórn Europe Jazz Network síðan 2018 og gegnir stöðu vara-forseta. Viðtöl við Sunnu hafa birst í erlendum miðlum og prýddi hún forsíðu þýska tímaritsins Jazzthetik í febrúar 2023. Sunna hefur einnig lagt sitt af mörkum til að kynna jazztónlist fyrir ungum hlustendum eins og í verkefninu Jazzhrekkur fyrir yngsta skólastigið og verkefninu Jazzbadass sem hún skrifaði fyrir unglingastig.
Ferilskrá Sunnu. www.sunnagunnlaugs.com

Frétta og viðburðayfirlit