mobile navigation trigger mobile search trigger
12.03.2021

Athugasemd við athugasemd!

Vegna athugasemda heilbrigðisráðuneytisins sem birtar voru á vef Stjórnarráðsins í gær vilja bæjarstjórar Fjarðabyggðar og Vestmannaeyja koma eftirfarandi á framfæri.

Athugasemd við athugasemd!

Lög um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum nr. 72/2002, sem tryggja störf og réttindi starfsfólks við yfirfærslu stofnana milli rekstraraðila, hafa verið látin gilda um tilflutning verkefna milli ríkis og sveitarfélaga. Að bera því við að heilbrigðisráðherra hafi ekki heimild til þess, er útúrsnúningur og ber þess merki að heilbrigðisyfirvöld vilja ekki tryggja hnökralausan tilflutning dvalar- og hjúkrunarheimilanna til ríkisins. Eftir standa rúmlega 140 starfsmenn í óvissu og framtíð þeirra ótrygg.

Þegar málefni fatlaðra voru flutt frá ríki til sveitarfélaga voru umrædd lög látin gilda. Þau voru einnig látin gilda þegar hluti starfsfólks hjúkrunarheimilisins á Hornafirði fluttust frá Sveitarfélaginu Hornafirði til Heilbrigðisstofnunar Suðurlands á síðasta ári, sömu stofnunar og mun nú taka við rekstri hjúkrunarheimilisins í Vestmannaeyjum. Þá stóð til að réttarstaða starfsfólks yrði tryggð við tilflutning hjúkrunarheimilisins á Akureyri til Heilbrigðisstofnunar Norðurlands árið 2020, eins og fram kom í sameiginlegri fréttatilkynningu stjórnvalda og umræddra stofnana í ágúst 2020. Það virðist því auðvelt að beita umræddum lögum þegar það hentar ríkinu, en bera svo við heimildarleysi þegar það hentar ekki.

Að bera því svo við að bæjarstjórunum hefði mátt vera það ljóst að lög um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum ættu ekki við, er hvorki ljóst né regla. Það sanna dæmin hér að ofan og öll þau óljósu skilaboð sem sveitarfélögin fengu um að lögin myndu gilda og ekki gilda, voru ekki til að skýra málið frekar.

Til upprifjunar: Eftir ítrekaðar en árangurslausar tilraunir til viðræðna við heilbrigðisráðuneytið um viðbótarfé til reksturs hjúkrunarheimila sveitarfélaganna, sem sveitarfélögin hafa árum saman greitt hundruðir milljóna með, var fátt annað í stöðunni en segja upp samningum um rekstur þeirra á. Eftir að uppsagnir á samningi höfðu verið mótteknar af Sjúkratryggingum Íslands (SÍ), gekk illa að fá fundi og svör um yfirfærsluna. Sveitarfélögin þurftu að margganga á eftir upplýsingum og viðræðum. Þegar viðræður hófust spurðu sveitarfélögin ítrekað um réttarstöðu starfsfólks hjúkrunarheimilanna enda umhugað um að staða þess væri tryggð. Endurtekið var leitað eftir leiðbeiningum frá SÍ um hvernig halda átti á málum starfsfólks. Engin skýr svör og ýmist látið í það skína að lögin ættu við eða ekki. Engin svör bárust um það hvort skýr vilji væri af hálfu ráðuneytisins um að beita umræddum lögum. Alltaf var gengið út frá því að fólkið héldi störfum sínum.

Það leið og beið án þess að niðurstaða málsins lægi fyrir.  Það var ekki fyrr en á fundi með heilbrigðisráðuneytinu þann 3. mars sl., mörgum mánuðum eftir að samningum var sagt upp, að sveitarfélögunum var tilkynnt um þá ákvörðun ráðuneytisins að heilbrigðisstofnanir viðkomandi svæða tækju að sér rekstur hjúkrunarheimilanna frá og með 1. apríl 2021. Einnig var það tilkynnt að lög um aðilaskipti, nr. 72/2002 myndu ekki vera látin gilda þannig að störf á heimilunum yrðu auglýst. Sveitarfélögunum yrði þannig nauðugur sá eini kostur að segja öllu starfsfólki heimilanna upp með tilheyrandi óvissu fyrir starfsfólk og heimilismenn. Var þessum vinnubrögðum að sjálfsögðu harðlega mótmælt, enda engan veginn ásættanleg og koma fram rök sveitarfélaganna í bréfum þeirra til ráðuneytisins sem opin eru undir fundargerðum á heimasíðum þeirra

Það hefði verið ólíkt ábyrgari og faglegri viðbrögð ráðuneytisins við uppsögn sveitarfélaganna að vinna í samstarfi að farsællri yfirfærslu þessarar viðkvæmu starfsemi. Þannig hefði verið hægt að koma í veg fyrir að mál væri komin í þennan hnút. Ábyrgð á því ber heilbrigðisráðuneytið eitt. Sveitarfélögin hafa því ákveðið að leita til velferðarnefndar Alþingis um að nefndin beiti sér fyrir því að nauðsynlegar ráðstafanir verði gerðar til að tryggja starfsfólki áframhaldandi störf og réttindi við yfirfærsluna.

Jón Björn Hákonarson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar

Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri Vestmannaeyja

Frétta og viðburðayfirlit