mobile navigation trigger mobile search trigger
02.12.2020

Bæjarráð Fjarðbyggðar hvetur Reykjavíkurborg til að afturkalla kröfu sína á hendur Jöfnunarsjóði sveitarfélaga

Í bókun sem bæjarráð Fjarðabyggðar samþykkti á fundi sínum sl. mánudag var Reykjavíkurborg hvött til að draga til baka 8,7 milljarðar króna kröfui sem hún hefur sett fram á Jöfnunarsjóð Sveitarfélaga, enda geti krafan haft þau áhrif að Jöfnunarsjóðurinn þurfi að draga úr framlögum sínum til sveitarfélaga til framtíðar.

Bæjarráð Fjarðbyggðar hvetur Reykjavíkurborg til að afturkalla kröfu sína á hendur Jöfnunarsjóði sveitarfélaga

Með bókuninni var þannig tekið undir bókun byggðaráðs Skagafjarðar um sama mál og samþykkt var í síðustu viku. Bókun bæjarráðs Fjarðabyggðar hljómar svo:

Bæjarráð Fjarðabyggðar tekur undir með bókun byggðarráðs Skagafjarðar hvað varðar kröfu Reykjavíkurborgar á hendur Jöfnunarsjóði sveitarfélaga upp á 8,7 milljarða kr. vegna meintra vangoldinna framlaga úr sjóðnum. Bæjarráð Fjarðabyggðar hvetur borgarstjórn Reykjavíkur til að endurskoða áðurnefnda kröfu því nái hún fram að ganga þá mun Jöfnunarsjóðurinn þurfa að greiða kröfuna úr sínum sjóðum og þannig um leið þurfa að skerða framlög sín sem því nemur til sveitarfélaganna. Slíkt mun verða mörgum sveitarfélögum mikið áfall og verða til þess að allir tapa í þessu máli. Um leið og minnt er á yfirburðastöðu Reykjavíkur sem höfuðborgar landsins gagnvart öðrum sveitarfélögum þá hvetur bæjarráð Fjarðabyggðar borgaryfirvöld að leita annara leiða við ríkisvaldið til að ná fram þeim leiðréttingum sem þau telja sig eiga inni frekar en í gegnum málarekstur gagnvart Jöfnunarsjóðnum.

Frétta og viðburðayfirlit