Miðvikudaginn 5. júlí síðastliðinn fór Jóna Árný Þórðardóttir, bæjarstjóri að heimsækja nemendur vinnuskólans í Fjarðabyggð til að kynna sér starfsemi hans og hitta nemendur. Hátt í 110 ungmenni á aldrinum 13 - 15 ára sækja nám í vinnuskólanum þetta sumarið.
Bæjarstjóri heimsækir nemendur í vinnuskólanum í Fjarðabyggð
Farið var í Neskaupstað, Eskifjörð og á Reyðarfjörð en þar voru nemendurnir t.d. að skera niður njóla og hirða hey.
Störfin eru fjölbreytt en snúa einna helst að umhverfismálum, en það er umhirða í bæjarlandi ásamt því að nemendur sem eru að koma úr 8.bekk sækja sjávarútvegsskólann og nemendur úr 9. bekk, læra um vinnubeitingu, lesa launaseðla, fá fræðslu um skatta og margt fleira.
Krakkarnir létu vel að starfinu þó veðrið hefði mátt vera aðeins skárra, en úrhellisrigning var á meðan heimsókninni stóð.
Á Eskifirði var hluti af hópnum í sjávarútvegskóla unga fólksins eins og áður nefndi. Það eru þær Katrín Axelsdóttir og Guðdís Benný Eiríksdóttir, nemar í sjávarútvegsfræðum, sem hafa umsjón með skólahaldinu á Austfjörðum í sumar.
Þess má geta að að sjávarútvegsskólinn var stofnaður af Síldarvinnslunni í Neskaupstað árið 2013 og bar þá nafnið Sjávarútvegsskóli Síldarvinnslunnar. Um tíma hét hann Sjávarútvegsskóli Fjarðabyggðar og síðan Sjávarútvegsskóli Austurlands. Á árinu 2016 hóf Háskólinn á Akureyri að annast skólahaldið og þá var hann nefndur Sjávarútvegsskóli unga fólksins. Til stendur að bjóða einnig upp á fiskeldisskóla og sjávarlíftækniskóla fyrir ungmenni á komandi tímum.