mobile navigation trigger mobile search trigger
25.01.2018

Bæjarstjóri fundaði með Umhverfis- og auðlindaráðherra

Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri átti fund 23.janúar sl. með Umhverfis- og auðlindaráðherra, Guðmundi Inga Guðbrandssyni.  Á fundinum var farið yfir þrjú mál sem snúa að mikilvægum verkefnum og málefnum sveitarfélagsins.

Bæjarstjóri fundaði með Umhverfis- og auðlindaráðherra

Fyrst var rætt um framkvæmdir við ofanflóðamannvirki í sveitarfélaginu. Bæjarstjóri ræddi mikilvægi þessi að nægt fé verði til staðar á fjárlögum til þess að ekki verði hlé á milli áfanga í framkvæmdum ofanflóðamannvirkja. Ljóst er að fjármagn er nægt í Ofanflóðasjóði og því leitt að ekki sé veitt meira fé úr sjóðnum en raun ber vitni til að halda áfram með verkefni sem verja fólk og eignir þeirra.

Í Neskaupstað geta framkvæmdir við varnargarð undir Urðarbotnum hafist á árinu 2019 m.v óbreytt fjárframlög og verkefnið boðið út haustdögum 2018 enda hönnun langt komin. Þá verða rúmlega tvö ár liðin frá því að framkvæmdir við Tröllagilsvarnargarðinum lauk. Þá er unnið að verkefnum á Eskifirði þar sem hætta er á aur- og krapaflóðum og verður þeim verkefnum einnig  haldið áfram.

Þá var rætt um mikilvægi þess að löggjöf um skipulag haf- og strandsvæða yrði til sem fyrst. Sveitarfélagið leggur eins og áður mikla áherslu á að skipulagsvald sveitarfélaga nái yfir firði sem liggja að landi í sveitarfélaginu. Strandsvæði eru ásamt innfjörðum og flóum, hluti af skipulagsáætlunum sveitarfélaga með bæði beinum og óbeinum hætti. Séu þessi svæði slitin úr samhengi við skipulagsáætlanir sveitarfélaga, gæti það haft í för með sér vandmeðfarið óhagræði og árekstra ólíkra hagsmuna, með þeim afleiðingum að þau grundvallarmarkmið skipulagslöggjöfar verða fyrir borð borin, sem stuðla að nýtingu og verndun auðlinda á sjálfbærum grunni í þágu efnahagslegrar uppbyggingar og félagslegrar velferðar. Nokkuð var fjallað um þetta mál á síðasta ári og rök fyrir þessari áherslu sveitarfélagsins. Einnig var haldin sérstök ráðstefna um þetta málefni á vordögum 2017 hana má sjá með því að smella hér.

Að lokum var rædd mikilvægi landvörslu í sveitarfélaginu. Með auknum ferðamannastraum er mikilvægt að landvörður sé við störf allt árið til að fylgjast með náttúrusvæðum í sveitarfélaginu. Á síðasta ári réði Umhverfisstofnun  starfsmann til að sinna landvörslu í Helgustaðanáum, ásamt friðlandinu í Hólmanesi og í Neskaupstað hluta úr árinu. Bæjarstjóri lagði áherslu á því að þessu verkefni yrði haldið áfram og um yrði að ræða fulla stöðu á ársgrundvelli í starfi landvarðar.

Frétta og viðburðayfirlit