Í dag var greint frá því á vef Mennta- og menningamálaráðuneytisins að frá og með næsta hausti verði boðið upp á undirbúningsnám fyrir háskólanám á Reyðarfirði í samvinnu Háskólans í Reykjavík og Háskólans á Akureyri.
Bætt aðgengi að háskólanámi á Austurlandi
Í tilkynningu ráðuneytisins segir m.a:
„Frá og með næsta hausti mun Háskólinn í Reykjavík bjóða upp á undirbúningsnám fyrir háskólanám á Austurlandi, í samvinnu við Háskólann á Akureyri. Námið verður sveigjanlegt, blanda af hefðbundnu og stafrænu námi, með kennslu og aðstöðu í Fróðleiksmolanum á Reyðarfirði“
Tilkynningu ráðuneytisins má finna á vef þess með því að smella hér.
„Það er afar gleðilegt að þetta verkefni sé komið af stað eftir mikinn og góðan undirbúning. Fyrstu skrefin voru stigin árið 2017 í samstarfi sveitarfélagsins við fyrirtæki á svæðinu og Háskólann á Akureyri með eflingu náms á háskólastigi í huga. Sá samstarfsvettvangur var svo stækkaður með samstarfi við Fljótsdalshérað, framhaldsskóla fjórðungsins og fleiri. Á liðnu hausti var svo undirritaður samstarfssamningur milli Mennta- og menningarmálaráðuneytisins og SSA og á þeim grunni hefur verkefnið haldið áfram“ sagði Jón Björn Hákonarson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar af þessu tilefni.
„Nú er verið að taka fyrstu skref í átt að því markmiði að styrkja og efla háskólastigið á Austurlandi. Það er von okkar að það geti vaxið og dafnað í góðu samstarfi við það öfluga atvinnulíf sem hér er. Það er samfélaginu öllu hér fyrir austan mikilvægt að áfram verði haldið á þessari braut til framtíðar“ bætti Jón Björn við að lokum.