mobile navigation trigger mobile search trigger
12.09.2017

Bókun bæjarráðs Fjarðabyggðar um fiskeldismál í Fjarðabyggð

Bæjarráð Fjarðabyggðar ályktaði á fundi 11. september um fiskeldismál í sveitarfélaginu þar sem hún skorar á Hafrannsóknarstofnun og hagsmunaaðila að tryggja fjármagn til rannsókna á Breiðdalsá.

Bókun bæjarráðs Fjarðabyggðar um fiskeldismál í Fjarðabyggð

Bókun bæjarráðs í heild sinni hljómar svo:

Áhættumat Hafrannsóknarstofnunar var kynnt fyrr í sumar og dró matið meðal annars stórlega úr leyfilegu fiskeldi í fjörðum Fjarðabyggðar. Forsenda matsins eru varúðarsjónarmið vegna Breiðdalsár en frekari rannsóknir þurfi að liggja fyrir áður en endurmat getur átt sér stað á Breiðdalsá.

Fiskeldi getur orðið ein af burðarstoðum atvinnulífs á Austfjörðum, ekki síst í þeim byggða-kjörnum sem átt hafa undir högg að sækja undanfarin ár og því er mjög mikilvægt að ráðist verði í frekari rannsóknir á Breiðdalsá nú þegar.

Því skorar bæjarráð Fjarðabyggðar á hagsmunaaðila og Hafrannsóknarstofnun að vinna saman að því að finna verkefninu fjármagn til að hægt sé að eyða þeirri óvissu sem nú er uppi sem fyrst með auknum rannsóknum. Fyrir íbúa Fjarðabyggðar sem og íbúa Austfjarða eru hundruðir starfa undir og framtíðaruppbygging fyrir samfélögin.Þá bendir bæjarráð á að sveitarfélagið hefur samþykkt stefnumótun þar sem lögð er áhersla á að uppbygging fiskeldis fari fram á grundvelli sjálfbærrar nýtingar.

Frétta og viðburðayfirlit