Bæjarráð Fjarðabyggðar lýsir yfir þungum áhyggjum af þeirri stöðu sem uppi hefur verið í innanlandsflugi á vegum Icelandair síðustu misseri. Miklar tafir ásamt því að flug hefur verið fellt niður, hefur valdið notendum miklum vandræðum. Þá hefur einnig verið skortur á sætaframboði sem ekki síður hefur haft áhrif á þjónustuna.
04.07.2022
Bókun bæjarráðs vegna stöðu innanlandsflugs
Fyrir íbúa Austurlands eru flugsamgöngur við höfuðborgina veigamikill þáttur í almenningssamgöngum, þar sem víðtæka þjónustu þarf bæði að sækja til höfuðborgarinnar auk þess sem landsbyggðin treystir á mikilvæga þjónustu frá höfuðborgarsvæðinu.
Þetta ástand getur ekki varað áfram og óskar bæjarráð eftir skýrum svörum frá Icelandair hvernig félagið hyggst bregðast við þeim aðstæðum sem eru uppi og hvernig það ætlar að bæta úr.
Bæjarráð Fjarðabyggðar tekur undir með Múlaþingi og telur brýnt að forstjóri Icelandair komi til fundar hér fyrir austan með sveitarfélögunum, til að fara yfir þá stöðu sem komin er upp í innanlandsflugi félagsins.