mobile navigation trigger mobile search trigger
18.09.2020

Bókun bæjarstjórnar Fjarðabyggðar um málefni hjúkrunarheimilanna í Fjarðabyggð

Málefni hjúkrunarheimilanna í Fjarðabyggð hafa undanfarið verið talsvert til umræðu og hefur bæjarstjórn Fjarðabyggðar nú staðfest þá ákvörðun að samningum við Sjúkratryggingar Íslands um rekstur heimilanna skuli sagt upp.

Bókun bæjarstjórnar Fjarðabyggðar um málefni hjúkrunarheimilanna í Fjarðabyggð
Hjúkrunarheimilið Hulduhlíð á Eskifirði

Í Fjarðabyggð eru rekin tvö hjúkrunarheimili, Uppsalir á Fáskrúðsfirði og Hulduhlíð á Eskifirði. Samtals eru  40 heimilismenn á báðum heimilum og þar starfa um 70 manns. Um langt skeið hefur legið fyrir að þeir fjármunir sem ríkið leggur heimilunum til í gegnum Sjúkratryggingar Íslands duga ekki til að standa undir rekstrinum.

Framkvæmdaráð hjúkrunarheimilanna í Fjarðabyggð fundaði á dögunum og samþykkti á þeim fundi að samningum yrði sagt upp. Bæjarráð tók málið síðan fyrir á fundi sínum í vikunni og samþykkti þá uppsögnina einnig.

Á fundi bæjarstjórnar Fjarðabyggð fimmtudaginn 17. september samþykkti bæjarstjórn síðan að segja upp samningnum. Af því tilefni var eftirfarandi bókun samþykkt samhljóða:

Málefni hjúkrunarheimilanna í Fjarðabyggð hafa verið um langt skeið til ítarlegrar umfjöllunar innan nefnda og ráða sveitarfélagsins. Jafnframt hafa bæjaryfirvöld verið um árabil í viðræðum við heilbrigðisyfirvöld um málaflokkinn þar sem ljóst er að fjárhagslegur grundvöllur reksturs þeirra er brostinn, þrátt fyrir að yfirstjórn og starfsfólk þeirra hafi kappkostað að haga rekstrinum sem best um leið og staðinn hefur verið vörður um faglegt starf og kröfur, og hefur verið um langa tíð. Þessar viðræður hafa engan árangur borið og því getur sveitarfélagið Fjarðabyggð ekki unað lengur.

Vaxandi taprekstur hefur verið á rekstri heimilanna síðan árið 2014 og er hallinn orðinn um 150 milljónir króna á þessum tíma. Þá hefur sveitarfélagið lagt þeim til fé á móti úr rekstri sínum þrátt fyrir ábyrgð málaflokksins sé á hendi ríkisvaldsins . Þá hefur ótal sinnum verið bent á það ósamræmi sem er í rekstrarumhverfi hjúkrunarheimilanna þar sem sum þeirra eru nú fjármögnuð beint af ríkisframlögum.

Vegna þessa sér bæjarstjórn Fjarðabyggðar sér ekki annað fært en að taka undir með framkvæmdaráði hjúkrunarheimilanna, félagsmálanefnd og bæjarráði sveitarfélagsins og samþykkir að segja upp samningi um rekstur þeirra við Sjúkratryggingar Íslands. Um leið minnir bæjarstjórn á að ríkisvaldinu er skylt að taka við rekstrinum þannig að enginn brestur verði á þjónustu við heimilismenn á hjúkrunarheimilunum og réttindi og kjör starfsmanna þeirri haldist óbreytt líkt og kom fram við svipaðar aðstæður á Akureyri nú síðsumars er ríkisvaldið samþykkti að taka við rekstri Öldrunarheimila Akureyrar.

Frétta og viðburðayfirlit