mobile navigation trigger mobile search trigger
04.01.2016

Breytingar á skipuriti sveitarfélagsins

Umtalsverðar breytingar verða gerðar á framkvæmdasviði Fjarðabyggðar samfara nýju skipuriti sem tekið hefur gildi fyrir stjórnsýslu sveitarfélagsins. Sviðið nefnist nú framkvæmda-, umhverfis- og veitusvið og verður því skipt upp í fjórar starfseiningar.

Breytingar á skipuriti sveitarfélagsins

Bæjarráð Fjarðabyggðar hefur undanfarið misseri unnið að endurskoðun stjórnsýslunnar í umboði bæjarstjórnar sem stjórnkerfisnefnd. Skilaði sú vinna tillögum að nýju skipriti, sem bæjarstjórn samþykkti á fundi sínum þann 17. desember sl.

Starfsemi sveitarfélagsins verður í grunndráttum óbreytt. Tvö stoðsvið og tvö fagsvið verða starfandi sem fyrr og Fjarðabyggðarhafnir verða áfram hluti af yfirstjórn Fjarðabyggðar sem sjálfstætt B-hluta fyrirtæki.

Helstu breytingar eru þær að framkvæmdasvið sveitarfélagsins mun framvegis bera heitið framkvæmda-, umhverfis- og veitusvið Fjarðabyggðar. Sviðið sér annars vegar um alla tæknilega innviði Fjarðabyggðar og hins vegar, á grundvelli þjónustusamnings, um rekstur, viðhald og nýframkvæmdir við Fjarðabyggðarhafnir.

Starfsemi framkvæmda-, umhverfis- og veitusviðs skiptist í fjórar starfseiningar sem eru umhverfis- og landbúnaðarmál, eignaumsjón Fjarðabyggðar, veitur og framkvæmda- og þjónustumiðstöð. Þá er lagt til að skipulags- og byggingarfulltrúi, slökkviliðsstjóri og Slökkvilið Fjarðabyggðar heyri undir bæjarstjóra.

Markmið ofangreindra breytinga er að nýta betur þekkingu og reynslu starfsmanna, tækjabúnað og kaupkraft sveitarfélagsins vegna framkvæmda, eignaumsýslu og hafnarreksturs. Með því að færa stjórnsýsluleg verkefni eins og skipulagsmál og byggingarmál frá framkvæmdasviði til bæjarstjóra, auk umsýslu vegna Slökkviliðs Fjarðabyggðar, fær sviðsstjóri framkvæmda- umhverfis- og veitusviðs enn fremur aukið svigrúm til að sjá um rekstur tæknilegra innviða sveitarfélagsins og hafnarinnar.

Þá bætist við skipurit Fjarðabyggðar staða atvinnu- og þróunarstjóra og er sú viðbót gerð í ljósi góðrar reynslu af störfum verkefnastjóra í atvinnumálum. Starfið er á vettvangi atvinnuþróunar og tengdra verkefna og er talið mikilvægt fyrir sveitarfélagið þótt starfið kunni að þróast frekar.

Sviðsstjóri framkvæmda-, umhverfis og veitusviðs Fjarðabyggaðar verður Marinó Stefánsson, sem gegnt hefur starfi tæknimanns og umhverfisstjóra á framkvæmdasviði. Guðmundur Elíasson tekur við starfi forstöðumanns veitna, sem er nýtt starf á sviðinu. 

Aðrar breytingar hafa ekki verið gerðar á skipuriti eða stjórnskipulagi sveitarfélagsins. 

Sjá má nýtt skipurit sveitarfélagsins og stjórnskipulag hér að neðan.

Fleiri myndir:
Tók gildi 01.01.2016
Tók gildi 01.01.2016

Frétta og viðburðayfirlit