Undirritaður var í dag á Norðfjarðarflugvelli samningur á milli Fjarðabyggðar og Innanríkisráðuneytisins um fjármögnun endurbóta á Norðfjarðarflugvelli, sem gera munu flugvellinum kleift að sinna áfram þýðingarmiklu öryggishlutverki sínu. Fjarðabyggð fjármagnar ásamt SÚN og Síldarvinnslunni í Neskaupstað um helming framkvæmdarinnar. Hér má sjá Ólöfu Nordal, innanríkisráðherra og Pál Björgvin Guðmundsson, bæjarsstjóra, handsala samninginn að undirritun lokinni.
Bundið slitlag sett á Norðfjarðarflugvöll
Norðfjarðarflugvöllur er í eigu ríkissjóðs og er rekinn af Isavia ohf. Markmið samningsins er að flugvellinum verði gert kleift að sinna betur öryggishlutverki sínu, sem hluti af samgöngukerfi landsins.
Endurbæturnar felast aðallega í lagningu á bundnu slitlagi, en ástand flugvallarins, sem hefur fram að þessu verið malarvöllur, hefur farið mjög versnandi undanfarin ár.
Samninginn undirritaði Ólöf Nordal, innanríkisráðherra, fyrir hönd ríkissjóð og Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri, að hálfu Fjarðabyggðar. Þá undirrituðu einnig Jón Karl Ólafsson, framkvæmdastjóri innanlandsflugvalla hjá Ísavia og Viðar Hauksson, hjá Héraðsverki, samning um framkvæmd verksins. Heildarkostnaður verksins nemur um 160 m.kr. og eru verklok áætluð sumarið 2017.
Þá undirrituðu Páll Björgvin fyrir hönd Fjarðabyggðar, Guðmundur Rafnkell Gíslasson framkvæmdastjóri Samvinnufélags útgerðarmanna í Neskaupstað (SÚN) og Gunnþór Ingvason, framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar hf., samning um framlag heimaðila til framkvæmdarinnar.
Að sögn Páls Björgvins Guðmundssonar, bæjarstjóra Fjarðabyggðar, er dagurinn stór fyrir heilbrigðisþjónustu á Austurlandi. Með samningnum sé tryggt, að flugvöllurinn valdi sem best öryggishlutverki sínu vegna sjúkraflugs fyrir Umdæmissjúkrahús Austurlands/ FSN, en sjúkrahúsið sinnir m.a. allri bráðaþjónustu á Austurlandi.
Sjúkraflugi er sem kunnugt er ætlað að þjóna bráðatilfellum ásamt öðrum alvarlegum tilvikum. Þá er því einnig ætlað að tryggja aðgengi á landsvísu að sérhæfðri þjónustu Landspítalans í Reykjavík og að því búnu meðferðar- og endurhæfingarúrræðum í heimahéraði. Í því felst verulegt hagræði, ekki aðeins fyrir notendur þjónustunnar heldur einnig rekstur heilbrigðiskerfisins, þar sem öll þjónustustig þess nýtast með þessu móti betur en ella.
Það sem af eru þessu ári, hefur í 47 af 77 tilvikum reynst ógerlegt að lenda sjúkraflugvélum á Norðfjarðarflugvelli vegna sjúkraflutninga til Neskaupstaðar og frá. Í þeim tilvikum fer sjúkraflug um Egilsstaðarflugvöll, sem er í tæplega 75 km. fjarlægð frá umdæmissjúkrahúsinu.
Samkvæmt samningi Innanríkisráðuneytisins og Fjarðabyggðar skuldbinda aðilar sig til að standa straum af kostnaði vegna nauðsynlegra endurbóta á flugvellinum, sem nemur 158 m.kr. og skiptist þannig að ríkissjóður greiðir 82 m.kr. og Fjarðabyggð 76 m.kr.
Páll Björgvin segir það hafa verið bæjarstjórn Fjarðabyggðar umhugsunarefni, að umrædd framkvæmd hafi verið háð því að sveitarfélagið hefði milligöngu um allt að helming kostnaðarins. Það hafi tekist með rausnarlegu framlagi Samvinnufélags útgerðarmanna í Neskaupstað og Síldarvinnslunnar hf., sem leggja í sameiningu 50 m.kr. til verksins eða 2/3 hluta af framlagi Fjarðabyggðar.
Jafnframt bendir Páll Björgvin á, að á sama tíma og allra leiða sé leitað til að tryggja aðstöðu sjúkraflugs frá Austurlandi, hafi Reykjavíkurborg ákveðið að loka NA/SV neyðarbrautar Reykjavíkurflugvallar. Óumdeilt sé, að lokun hennar muni þrengja að þeim landsmönnum sem treysta verði á sjúkraflug.
Í bókun sinni um málið, mótmælir bæjarráð Fjarðabyggðar harðlega lokun flugbrautarinnar og lýsir jafnframt vonbrigðum með aðgerðarleysi stjórnvalda. Brýnt sé að sveitarfélög víki sér ekki undan því að leita lausna í almannaþágu, sem nýst geti fleirum en hverju og einu þeirra og þar sem ríkisstjórn landsins hafi enn fremur stutt á sínum tíma ákvörðun borgaryfirvalda um lokun brautarinnar, hljóti stjórnvöld að axla ábyrgð á afleiðingum þess með mótvægisaðgerðum. Þá segir að Fjarðabyggð leggi þunga áherslu á að Reykjavíkurborg, Samband íslenskra sveitarfélaga og ríkisvaldið komist að ásættanlegri niðurstöðu í þessu brýna almannaöryggismáli.