mobile navigation trigger mobile search trigger
29.12.2019

Daði Þór Jóhannsson er Íþróttamaður Fjarðabyggðar 2019

Íþróttamaður Fjarðabyggðar var valinn við hátíðlega athöfn í Nesskóla í Neskaupstað sunnudaginn 29. desember. Fyrir valinu varð frjálsíþróttakappinn Daði Þór Jóhannsson úr Ungmennafélaginu Leikni Fáskrúðsfirði. Daði hefur verið tilnefndur til Íþróttamanns Fjarðabyggðar alls fimm sinnum árin 2013, 2016, 2017, 2018 og nú 2019.

Daði Þór Jóhannsson er Íþróttamaður Fjarðabyggðar 2019

Umsögnin um Daða Þór var svohljóðandi: Frjálsíþróttakappinn Daði Þór Jóhannsson er gríðarlega öflugur alhliða frjálsíþróttamaður en hann finnur sig best í stökkgreinum. Í byrjun júní náði Daði þeim frábæra árangri að verða Íslandsmeistari í hástökki í undir 22 ára flokki, þar sem Daði stökk yfir 1,72 metra. Á sama móti varð Daði svo í öðru sæti í langstökki og í þrístökki. En í öllum greinum bætti hann sinn besta árangur. Seinna í sama mánuði var Daði svo mættur til Gautaborgar þar sem hann tók þátt á Gautaborgarleikunum þar sem hann bætti sinn fyrri árangur í hástökki og stökk þá yfir 1,80. Til að nefna nokkur önnur afrek á árinu og fjölbreyttni Daða sem íþróttamanns þá varð Daði í fyrsta sæti í spjótkasti, kringlukasti, kúluvarpi, 80 og 800 metra hlaupum á mótum hér fyrir austan. Auk þess varð hann í öðru sæti á Akureyrarmóti UFA í 600 metra hlaupi. Daði er mikil fyrirmynd, duglegur, samviskusamur og fylginn sér.

Aðrir sem tilnefndir voru til íþróttamanns Fjarðabyggðar 2019:

Alexandra Ýr Ingvarsdóttir  -  Skíðafélag Fjarðabyggðar

Ásmundur Hálfdán Ásmundsson  -  Ungmennafélaginu Val

Bergdís Steinþórsdóttir  -  Brettafélagi Fjarðabyggðar

Galdur Máni Davíðsson  -  Íþróttafélaginu Þrótti

Guðmundur Arnar Hjálmarsson  -  Ungmennafélaginu Leikni

Guðbjörg Oddfríður Friðjónsdóttir  -  Hestamannafélaginu Blæ

Jakob Kristjánsson  -  Skíðafélagi Fjarðabyggðar

Jóhanna Lind Stefánsdóttir  -  Íþróttafélaginu Þrótti

Tómas Atli Björgvinsson  -  Ungmennafélaginu Austra

Auk þess að heiðra ofantalda voru veittar viðurkenningar til þeirra einstaklinga sem hafa tekið þátt í landsliðsverkefnum á árinu.

Við óskum Daða Þór og öðrum afreksíþróttamönnum í Fjarðabyggð til hamingju með viðurkenningarnar og óskum þeim velfarnaðar á nýju ári.

Fleiri myndir:
Daði Þór Jóhannsson er Íþróttamaður Fjarðabyggðar 2019

Frétta og viðburðayfirlit